136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

afstaða iðnaðarráðherra til heræfinga Breta.

[11:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég hlýt að spyrja mig hér eftir að hafa hlustað á síðustu orðaskipti: Hvað er að ske í Samfylkingunni? Hér er verið að ræða um mjög vandasamt mál af mikilli léttúð. Við erum aðilar að NATO og við báðum um samning við NATO um ákveðna vernd og við fengum þann samning. Þó vill svo óheppilega til að Bretarnir eru næstir í röðinni að koma hingað til að gæta loftrýmis okkar. Það er mjög óheppilegt og allir sammála um það.

Við þessar aðstæður hefur starfandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, komið með miklar yfirlýsingar. Hann hefur sagt að það misbjóði þjóðarstolti Íslendinga að Bretarnir komi hingað. Hvað gerði hæstv. ráðherra í stóli utanríkisráðherra? Ekki neitt. Þetta var innihaldslaus yfirlýsing. Sumir mundu kjósa að kalla það gaspur. Ekki sjást nein verk eftir hæstv. ráðherra um að hann hafi undirbúið það að Bretarnir kæmu ekki í takt við yfirlýsingar hans. Hvað segir svo starfandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í gær í fjölmiðlum? Ekki stendur til að afþakka komu breskra flugsveita.

Hér bætir svo hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, um betur og segir: Ég kyssi ekki á vönd kvalara minna. Hvað er að ske í Samfylkingunni? Talar þetta fólk ekkert saman, virðulegur forseti? Er hæstv. iðnaðarráðherra að segja hér að hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kyssi á vönd kvalara sinna?

Svona geta menn ekki talað við þessar aðstæður í samfélaginu. Tveir (Forseti hringir.) ráðherrar úr sama flokki. Það er hneyksli hvernig hér er talað, virðulegur forseti.