136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

afstaða iðnaðarráðherra til heræfinga Breta.

[11:06]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki nýtt af nálinni að hæstv. iðnaðarráðherra kjósi að henda óhróðri í Framsóknarflokkinn, maður er löngu hættur að taka það nærri sér. (Gripið fram í.) En það sem er hér á ferðinni er að tveir hæstv. ráðherrar í sömu ríkisstjórninni tala út og suður í mjög viðkvæmu máli. Það gengur ekki upp, virðulegur forseti. Þetta eru ráðherrar í sama flokki að tjá sig um sama mál á mjög viðkvæmum tímum í íslenskri pólitík.

Ég spyr hæstv. iðnaðarráðherra sem var starfandi utanríkisráðherra, það er nú ekkert lítið — hann sagði að það misbyði þjóðarstolti okkar að fá Bretana hingað. Hæstv. ráðherra upplýsir hér að hann hafi komið þeim skilaboðum til Bretanna. Ég ætla rétt að vona að það sé rétt. Ég kýs að trúa því.

En þá spyr ég: Af hverju kom ekki hæstv. iðnaðarráðherra þessum skilaboðum til hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, (Forseti hringir.) sem nú segir í fjölmiðlum að ekki eigi að afþakka boð Bretanna um að koma hingað, samning okkar við Breta og við NATO? Af hverju kom ekki hæstv. iðnaðarráðherra þeim skilaboðum til eigin flokkssystur sem er formaður (Forseti hringir.) flokksins í þokkabót?