136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar og legg fram breytingartillögur á lögum um atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóð launa vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa félagsmálaráðuneytisins og auk þess fulltrúa frá Vinnumálastofnun, Alþýðusambandinu, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandinu og Bændasamtökunum. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Tryggingastofnun, frá Árna Leóssyni, starfsmanni VR, frá Alþýðusambandinu, Háskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands, Sjúkratryggingum Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bandalagi háskólamenntaðra og Kennarasambandi Íslands saman, og frá Viðskiptaráði, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Árna Þorvaldi Jónssyni arkitekt.

Frumvarpið er lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði og eru í því lagðar til breytingar sem miða að því að greiða hærri atvinnuleysisbætur til launþega sem þarf að kröfu vinnuveitanda að lækka starfshlutfall sitt. Þá er frumvarpinu einnig ætlað að tryggja þeim launþegum sem hafa þurft að lækka starfshlutfall sitt vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði bætur úr Ábyrgðasjóði launa miðað við fullt starfshlutfall ef til gjaldþrots vinnuveitanda kemur.

Við meðferð málsins ræddi nefndin einna helst gildistíma laganna, lögmætar væntingar og sjónarmið varðandi afturvirkni, úrræði þeirra sem missa vinnu sína til að stunda nám, og þar með stöðu starfsnema, stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga, lágmarksstarfshlutfall samkvæmt frumvarpinu og sérstök sjónarmið um uppsagnarfrest vegna skerts starfshlutfalls.

Öll þessi mál voru rædd vegna ábendinga sem fram komu í 1. umr. um frumvarpið. Farið var í gegnum öll þau atriði af nefndinni.

Nefndin ræddi hvort rétt væri að lengja gildistökuna frá því tímamarki sem frumvarpið mælir fyrir um. Telur nefndin rétt að hafa gildistíma afmarkaðan því að það bjóði upp á endurskoðun ákvæðisins. Þar sem nú ríkir óvissa á vinnumarkaði er eðlilegt að nýta tímann fram til 1. maí næstkomandi til að meta reynsluna af framkvæmd frumvarpsins og taka afstöðu eftir nokkra mánuði þegar hlutirnir hafa skýrst nokkuð. Nefndin áréttar þó þann skilning sinn að þó svo að ákvæðið gildi tímabundið sé vilji hennar að áframhaldandi úrræðum verði beitt kalli ástandið á vinnumarkaði á það.

Eftir umræðu er ekki gerð tillaga um að lengja gildistökuna en menn eru meðvitaðir um að hugsanlega gæti þurft að koma til þess og staðan verður endurmetin í mars/apríl á næsta ári.

Mörg fyrirtæki hafa þegar gripið til þeirra ráðstafana að endursemja við starfsfólk sitt um lægra starfshlutfall með samsvarandi launaskerðingu. Í einhverjum tilvikum virðist slík skerðing gerð á grundvelli væntinga um að frumvarpið verði að lögum og að bætur komi á móti skertum launum. Nefndin telur því nauðsynlegt að ákvæði 1. gr. gildi afturvirkt frá 1. nóvember síðastliðnum um þá sem uppfylltu skilyrði laganna á þeim tímapunkti. Ekki verður séð að þetta sé vandkvæðum bundið eða brjóti gegn grundvallarreglu um bann við afturvirkni laga. Um er að ræða ákvæði sem er ívilnandi, því er ætlað að bæta rétt fólks og það nær jafnt og almennt yfir alla þá sem lenda í skerðingunni eftir ákveðið tímamark.

Þarna er sem sagt breytingartillaga um að flýta gildistökunni til 1. nóvember.

Mikið var rætt um sjálfstætt starfandi aðila í samfélaginu, með hvaða hætti væri hægt að koma til móts við þarfir þeirra.

Það liggur fyrir að verulegur samdráttur á eftir að verða í rekstri hjá mörgum sjálfstætt starfandi einstaklingum og koma til atvinnuleysis margra þeirra í kjölfar þrenginga á fjármálamarkaði. Meðal skilyrða laganna fyrir tryggingu sjálfstætt starfandi einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins er að tilkynnt hafi verið til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hlutaðeigandi hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Ljóst er að aðstæður á vinnumarkaði eru breyttar en atvinnuleysi hefur þegar aukist töluvert frá byrjun október sl. og er gert ráð fyrir frekari aukningu á næstu vikum og mánuðum. Við slíkar aðstæður er þýðingarmikið að ýta undir hvers konar tækifæri sem leitt geta til þess að fólk geti orðið sér úti um verkefni og sé þannig virkt á vinnumarkaði. Svo það megi verða þykir mikilvægt að auka enn frekar á sveigjanleika atvinnuleysistryggingakerfisins en gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu þannig að það nái einnig til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Tilgangur breytingartillögu nefndarinnar er að veita sjálfstætt starfandi einstaklingum svigrúm til að taka að sér tilfallandi verkefni samhliða atvinnuleysisbótum.

Þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur vill eiga þess kost að taka að sér tilfallandi verkefni í stað þess að stöðva reksturinn alveg með hefðbundnum hætti er það gert að skilyrði að hann tilkynni skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstrinum sem leiðir til tímabundins atvinnuleysis hans. Þá getur hann sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en á þeim tíma sem hann fær þær greiddar er gert að skilyrði að hann geri grein fyrir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi mánaðarlega og skili virðisaukaskattsskýrslum samkvæmt skráningu hans í grunnskrá virðisaukaskatts enda hafi hann ekki hug á að stöðva reksturinn með öllu. Með verulegum samdrætti í rekstri er átt við að fram komi veruleg lækkun á reiknuðu endurgjaldi frá því sem var á fyrra tekjuári sem og að reksturinn hafi nánast stöðvast fyrir utan einstaka tilfallandi verkefni. Þannig fá skattyfirvöld og Vinnumálastofnun séð að um raunverulegt atvinnuleysi sé að ræða hjá viðkomandi og geta fylgst með þróuninni í atvinnurekstri hans. Gert er ráð fyrir að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða á sama hátt og gildir um þær ráðstafanir sem lagðar eru til að því er varðar réttindi launafólks enda verið að mæta mjög sérstökum aðstæðum á vinnumarkaði. Að sama skapi telur nefndin mikilvægt að meta stöðuna þegar gildistími ákvæðis rennur út.

Hvað varðar námsmenn telur nefndin nauðsynlegt að greina á milli þeirra sem stunda lánshæft nám samkvæmt Lánasjóði íslenskra námsmanna og þeirra sem stunda annars konar nám, svo sem framhaldsskólanám og einstök námskeið. Lagabreyting sem leiðir til þess að sá sem missir vinnuna geti stundað lánshæft nám á atvinnuleysisbótum mundi skapa ójafnræði með aðilum og mismuna þeim eftir stöðu þeirra. Nefndin telur því ekki hægt að gera slíka breytingu. Hvað varðar þá sem missa vinnuna en hafa hug á að stunda framhaldsskólanám eða einstök námskeið sem ekki eru lánshæf samkvæmt útlánareglum LÍN, telur nefndin eðlilegt að félags- og tryggingamálaráðuneytið ásamt Vinnumálastofnun og öðrum aðilum leiti leiða til að auðvelda þeim að stunda nám m.a. með það að sjónarmiði að bæta hag þeirra, bæta líkur þeirra á að finna starf og auka við þau störf sem þeir geta innt af hendi.

Í nefndinni var rætt hvort breyta ætti lágmarksstarfshlutfalli en í frumvarpinu er miðað við að launamaður geti fengið bætur enda haldi hann að lágmarki 50% starfshlutfalli. Nefndin leggur þó ekki til breytingar hvað þetta varðar enda sé eðlilegt að atvinnurekendur geri sitt ýtrasta til að lækka ekki starfshlutfall meira en nauðsynlegt er og, ef tök eru á, ekki meira en nemur helmingi vegna þeirrar tekjuskerðingar sem lægra starfshlutfall hefði í för með sér, þó svo að bætur fengjust á móti skerðingunni.

Þar sem allar breytingar á vinnusambandi varðandi kjör og vinnutíma eru háðar uppsagnarfresti komu fram þau sjónarmið að nauðsynlegt væri að kveða á um það með lögum að fallið skyldi frá slíkum uppsagnarfresti vegna ákvæðis um skert starfshlutfall. Nefndin telur þó ekki nauðsyn á slíku enda sé lækkað starfshlutfall gert með nýjum samningi við starfsmenn og því ekki í gildi almenn ákvæði um uppsagnarfrest og laun á slíkum fresti.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kristinn H. Gunnarsson ritar undir álit þetta með fyrirvara.

En undir álitið skrifa Guðbjartur Hannesson, Ármann Kr. Ólafsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birkir J. Jónsson, Kristinn H. Gunnarsson, með fyrirvara eins og áður sagði, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Þetta er sem sagt eitt af þeim málum sem eru að koma inn í þingið til þess að leita úrbóta til að bæta hag fólks sem lendir í atvinnuleysi. Ég vil þakka öllum þeim aðilum sem lögðu því lið að koma þessu hratt í gegnum 1. umr. Ég þakka öllum nefndarmönnum góða samstöðu um málið og mikinn vilja til þess að koma því áfram. Ég vona að þingið nái að afgreiða þetta í dag með afbrigðum þannig að við fáum 3. umr. síðar í dag og getum lokið málinu svo að úrræðin taki sem fyrst gildi.