136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[11:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta fumvarp einfaldlega vegna þess að ég get skrifað upp á það sem fram kom í ræðu hv. formanns félagsmálanefndar, Guðbjarts Hannessonar, enda á ég aðild að nefndarálitinu eins og hann gat um í lokaorðum sínum.

Það er rétt sem fram kom hjá honum að þær ábendingar sem fram komu í þingsal við 1. umr. málsins hafa verið teknar til umfjöllunar. Ég fagna því sérstaklega að gerð skuli sú breyting á lögunum að koma til móts við sjálfstætt starfandi atvinnurekendur, sem margir hverjir koma til með að standa frammi fyrir erfiðleikum á komandi tímum, og einnig að horft sé til launafólks sem misst hefur vinnu sína en verið með einhvers konar atvinnurekstur á hendi, lítils háttar, og á ekki kost á því samkvæmt núgildandi lögum að fá atvinnuleysisbætur nema fyrirtækinu, þótt lítið sé, sé lokað. Þetta slær á sjálfsbjargarviðleitni fólks og skapar því iðulega erfiðleika. Ég þekki nokkur dæmi þess að launamenn missa vinnu sína, hafa aflað sér tekna með einhvers konar atvinnurekstri í hjáverkum. Mér finnst óeðlilegt að gera stóran greinarmun á slíkri vinnu og launavinnu, ekki síst þegar við horfum fram á tíma sem eru því miður óumdeilanlega fram undan.

Ég fagna þessari breytingu og lít svo á að þetta hljóti einnig að taka til bænda sem eru samkvæmt skilgreiningu laga sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Það var einmitt ábending sem fram kom við 1. umr. málsins, gott ef það var ekki hv. þm. Jón Bjarnason sem benti á þetta ásamt eflaust fleiri þingmönnum.

Frumvarpið í heild sinni er hugsað til að skapa meiri sveigjanleika í kerfinu og stuðla að því að fyrirtæki sem verða að draga saman seglin leiti eftir því að draga úr vinnuhlutfalli starfsfólks að einhverju leyti í stað þess að segja fólki upp störfum. Ef vilji er til slíks innan fyrirtækisins og meðal launafólksins þá er ekkert nema gott um slíkt að segja, meira að segja mjög jákvætt ef samstaða er um slíkt og lögin eru til þess sniðin að koma til móts við þetta.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta en skrifa að öðru leyti upp á framsögu hv. formanns félagsmálanefndar.