136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[12:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja hv. formann félags- og tryggingamálanefndar hvernig launamaðurinn á að sanna að þetta hafi verið, eins og segir í lagatextanum, að kröfu vinnuveitandans. Um það snýst spurning mín.

Ég fagna yfirlýsingu um að þetta eigi að gilda, eins og hv. þingmaður sagði, um þá sem misst hafa starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda og við útgreiðslu úr Ábyrgðasjóði launa eigi þá að miða við þá þrjá mánuði áður en til skerðingarinnar kom. Um það eru allir sammála. En í textanum segir „að kröfu vinnuveitanda“. Ég sé fyrir mér að við búskipti geti sönnunarbyrðin orðið nokkuð erfið.

Mig langar til að fá svar hv. nefndarformanns við því hvernig eigi að sanna það. Ekki er hægt að minnka eða breyta starfshlutfalli án samþykkis eða samkomulags við starfsmann. Aðstæður nú eru hins vegar þannig að þumalskrúfa er á mönnum víða í samfélaginu. Samningar eru lausir og menn hafa ekki samningsstöðu og þiggja þetta til að halda áfram vinnusambandinu, eins og þingmaðurinn nefndi, en erfitt getur verið kannski sex, átta, tíu, tólf mánuðum síðar að sanna að það hafi verið sérstök krafa vinnuveitanda.