136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

lífsýnasöfn.

123. mál
[12:08]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn. Frumvarpið var samið af nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins.

Núgildandi lög tóku gildi 1. janúar 2001 og hafa almennt reynst vel. Síðastliðin ár hafa þó komið fram ábendingar um að nauðsynlegt sé að greinarmunur sé gerður á sýnum sem safnað er vegna vísindarannsókna eingöngu og sýna sem safnað er vegna þjónustu við sjúklinga. Jafnframt er talin þörf á að skoða ákvæði um afturköllun samþykkis lífsýnisgjafa, varðveislu lífsýna, aðgang að lífsýnum til vísindarannsókna og eftirlit með lífsýnasöfnum.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Lagt er til að hugtakið persónugreinanlegt lífsýni verði skilgreint í 3. gr. laganna, en það þykir nauðsynlegt í tengslum við afturköllun ætlaðs samþykkis lífsýnisgjafa svo og varðandi aðgang að sýnum vegna vísindarannsókna. Lífsýni telst persónugreinanlegt ef unnt er að rekja það til lífsýnisgjafa beint eða óbeint svo sem með tilvísun í kennitölu, kóða eða með öðrum hætti.

Í núgildandi lögum eru ekki skýr skil milli lífsýna sem safnað er vegna vísindarannsókna og lífsýna sem tekin eru vegna þjónustu við sjúklinginn og hefur það valdið vandkvæðum við framkvæmd laganna. Því er lagt til að gerður sé greinarmunur á lífsýnum sem safnað er í vísindalegum tilgangi og lífsýnum sem tekin eru vegna heilbrigðisþjónustu og hugtökin vísindasýni og þjónustusýni skilgreind og gerður greinarmunur á lífsýnasöfnun þjónustusýna og lífsýnasöfnun vísindasýna.

Tilgangur lífsýnasafna þjónustusýna er fyrst og fremst að vista lífsýni vegna mögulegra viðbótarrannsókna í þágu lífsýnisgjafans. Tilgangur lífsýnasafna vísindasýna er hins vegar að varðveita vísindasýni í þágu vísindarannsókna. Lagt er til að kveðið verði á um það í 5. gr. laganna að séu vísindasýni og þjónustusýni í sama lífsýnasafni skuli þau vera skýrt aðgreind og merkt þannig að tryggt sé að varsla, meðferð og nýting þeirra sé í samræmi við ákvæði laganna. Enn fremur er lagt til að tekið verði fram í 2. málslið 4. mgr. 7. gr. laganna að beiðni lífsýnisgjafa um afturköllun ætlaðs samþykkis til vistunar í lífsýnasafni til notkunar skv. 9. gr. laganna geti varðað öll persónugreinanleg lífsýni sem þegar hafi verið tekin eða kunni að verða tekin úr honum. Sé um að ræða sýni sem ekki er unnt að rekja beint eða óbeint til lífsýnisgjafa er ljóst að ekki er hægt að verða við beiðninni vegna þess að ekki er hægt að finna lífsýnisgjafann. Ekki verður heldur séð að slík notkun gæti með nokkru móti skaðað hagsmuni lífsýnisgjafa.

Þá eru lagðar til breytingar á 6. og 7. málslið 4. mgr. 7. gr. Í núgildandi ákvæðum er gert ráð fyrir að úrsagnaskrá landlæknis sé aðgengileg stjórnum lífsýnasafna. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að stjórn lífsýnasafns hafi aðgang að skránni. Hins vegar er nauðsynlegt að ábyrgðarmaður lífsýnasafns hafi aðgang að skránni þannig að hann viti hvaða sýni má nota til vísindarannsókna. Hér er því lagt til að ábyrgðarmaður lífsýnasafns hafi skilgreindan aðgang að úrsagnaskrá lífsýnasafna hjá landlækni svo hann geti merkt sýni í sinni vörslu með viðeigandi hætti og þannig tryggt að vilji einstaklings sé virtur.

Samkvæmt núgildandi ákvæði 1. mgr. 8. gr. skulu öll lífsýni varðveitt án persónuauðkenna. Þegar um er að ræða þjónustusýni getur það hins vegar farið gegn hagsmunum sjúklings þar sem þjónustusýni eru í eðli sínu eins og hver önnur sjúkragögn og getur verið nauðsynlegt að þau séu varðveitt með nafni og/eða kennitölu sjúklings til að koma í veg fyrir mistök. Því er lagt til að krafa um að lífsýni séu varðveitt án persónuauðkenna taki einungis til vísindasýna.

Þá er lagt til að bætt verði við 9. gr. laganna nýrri málsgrein þess efnis að þegar þjónustusýni eru afhent til vísindarannsókna skuli þau að jafnaði afhent án persónuauðkenna. Um afhendingu með persónuauðkennum yrði aðeins að ræða í undantekningartilfellum og þá með leyfi Persónuverndar.

Loks er lagt til að eftirlit með lífsýnasöfnum vísindasýna sé hjá vísindasýnanefnd en eftirlit með lífsýnasöfnum þjónustusýna hjá landlækni enda flokkast starfsemi þeirra undir heilbrigðisþjónustu.

Drög að frumvarpinu voru send til sautján aðila og sendu sjö inn umsagnir. Í umsögnum komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem tekið var tillit til við samningu frumvarpstextans.

Að mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins leiðir frumvarpið ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að því verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.