136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

sjúkratryggingar.

67. mál
[12:23]
Horfa

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112 frá þessu ári sem er að finna á þskj. 67.

Frumvarpið er tvær greinar. Í fyrri grein þess eru lagðar til breytingar á 20. gr. laganna um sjúkratryggingar á þá lund að sjúkratryggingar taki til tannlækninga allra öryrkja og þeirra sem eru 25 ára og samið hefur verið um samkvæmt IV. kafla laganna.

Gert er ráð fyrir í síðari grein frumvarpsins að lögin taki gildi 1. janúar 2009. Í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um að 1. janúar 2010 hækki aldursmörkin sem sett hafa verið 25 ár upp í 28 ár og síðan hækki þau um þrjú ár um hver áramót þar til þau hafa náð 40 árum. Þá ná sjúkratryggingarnar yfir þá sem eru 40 ára og yngri auk aldraðra og öryrkja.

Með frumvarpinu fylgir stutt greinargerð svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í tannlæknakostnaði landsmanna. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en er nú lagt fram breytt vegna tilkomu nýrra laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008.

Með frumvarpi þessu eru eins og fyrr segir lagðar til verulegar breytingar á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í tannlæknakostnaði landsmanna. Gert er ráð fyrir að tannréttingar verði felldar inn í tannlæknaþjónustuna og greiddar með sama hætti og sjúkratryggingin og látin ná til fleiri en nú er. Aldursmörkin verði hækkuð strax úr 18 árum í 25 ár við næstu áramót og síðan árlega um þrjú ár þar til allir 40 ára og yngri, auk aldraðra og öryrkja, falla undir sjúkratrygginguna 1. janúar 2014. Ekki er lagt til að stíga skrefið til fulls að svo stöddu en af hálfu flutningsmanns er markmiðið að kostnaður sjúklings við tannlækningar án tillits til aldurs verði meðhöndlaður eins og annar lækniskostnaður og falli að lokum inn í sjúkratrygginguna.

Gert er ráð fyrir að greiðsluþátttaka sjúklings verði föst fjárhæð, sambærileg við kostnað við aðra læknisþjónustu utan sjúkrahúsa og ákveðin í gjaldskrá sem ráðherra setur en horfið frá því fyrirkomulagi sem verið hefur að endurgreiðsla ríkisins miðist við gjaldskrá sem ráðherra setur án tillits til þess gjalds sem tannlæknar innheimta fyrir þjónustu sína.

Á þessum tímapunkti hefur Sjúkratryggingastofnun ekki samið við tannlækna á grundvelli heimilda skv. 5. gr. sjúkratryggingalaga, sbr. og 20. gr., og því má gera ráð fyrir að greiðsluþátttaka ríkisins verði enn um sinn ákvörðuð í gjaldskrá heilbrigðisráðherra. Flutningsmaður leggur til að á meðan svo háttar verði greiðsluþátttaka sjúklings föst fjárhæð og taki mið af raunverulegu gjaldi sem tannlæknar innheimta fyrir þjónustu sína.

Rétt þykir að minna á frétt í Ríkisútvarpinu frá 14. mars 2007 með fyrirsögninni „Tannverndarstefna stjórnvalda í molum“. Þar er haft eftir Sigurjóni Benediktssyni, formanni Tannlæknafélags Íslands, að stjórnvöld hafi brugðist í tannverndarmálum barna. Segir hann að tannheilsa barna fari eftir því hvort foreldrar þeirra hafi efni á því að senda þau til tannlæknis. Sem dæmi kosti tannskoðun þriggja ára barns hjá barnatannlækni um 11.000 kr. en aðeins um 3.000 kr. fáist endurgreiddar og því greiði foreldrar um 8.000 kr. úr eigin vasa. Þann kostnað sé svo ekki hægt að telja með við umsókn um afsláttarkort vegna lækniskostnaðar. Annars staðar á Norðurlöndum greiði stjórnvöld yfirleitt allan kostnað af tannvernd barna. Sigurjón segir að nýlegar rannsóknir heilbrigðisráðuneytisins bendi til þess að stefna íslenskra stjórnvalda hafi reynst illa. Nýlegar tölur benda til þess að fimmtungur barna og unglinga á aldrinum 4–18 ára fari ekki til tannlæknis.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað við tannlækningar en lauslegt mat gerir ráð fyrir að heildarkostnaður, að tannréttingum meðtöldum, geti verið allt að 7–8 milljarðar kr. á ári. Hlutur ríkisins er um 1.300 millj. kr. eða tæplega 20% af heildarkostnaði. Ætla má, verði frumvarpið að lögum, að kostnaður nemi í fyrstunni um 1 milljarði kr. árlega en að fullu komið til framkvæmda nái frumvarpið til ríflega helmings kostnaðar þeirra sem í dag eru ekki sjúkratryggðir og að kostnaður verði þá 3–4 milljarðar kr.“

Þar með er lokið greinargerð sem fylgir með frumvarpinu.

Vissulega má velta því fyrir sér í ljósi þess hversu mjög efnahagsaðstæður hafa breyst frá því að frumvarpið var lagt fram í fyrsta sinn í fyrra hvort rétt sé að leggja fram frumvarp sem bætir útgjöldum við ríkissjóð og það töluverðum eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég fellst alveg á það sjónarmið að það beri a.m.k. að skoða það mjög vandlega. En að athuguðu máli fannst mér ekki rétt að breyta frumvarpinu eða seinka því að greiðsluþátttaka ríkissjóðs taki gildi vegna þess að ég tel að rökin fyrir því að málið taki gildi strax og ríkissjóður yfirtaki stærri hluta af þessum kostnaði en verið hefur vera líka fullgild. Við vitum að niðurstaðan er sú að mati tannlækna að sú stefna sem rekin hefur verið hefur reynst illa. Hún hefur leitt til mjög slæmrar tannheilsu, borið saman við önnur Norðurlönd sem hafa hagkerfi sem ég legg til að verði gengið í átt til.

Í öðru lagi liggja fyrir vísbendingar um að nú þegar hafi efnahagskreppan haft þau áhrif almennt á samskipti fólks við heilbrigðiskerfið að býsna margir virðast draga það eða hætta jafnvel við að leita til heilbrigðiskerfisins ef það hefur í för með sér umtalsverð útgjöld fyrir einstaklinginn. Það held ég að sé mikið áhyggjuefni ef þær vísbendingar reynast réttar því að það mun að lokum leiða til verra heilsufars þjóðarinnar og aukins kostnaðar ríkissjóðs. Að lokum kemur alltaf fram vanrækslan á eftirliti og viðhaldi á líkamanum eins og hverjum öðrum hlut. Ég er því ekki viss um að rökin standi endilega með því að seinka breytingunni. Ég held jafnvel að rökin geti verið í þá veru að skynsamlegt sé nú, vegna þess sem hugsanlega kann að gerast og vísbendingar eru um, að ríkissjóður auki þátttöku sína í þessum kostnaði til að koma í veg fyrir að enn verr fari. Það gæti auk þess verið hluti af sáttmála sem gera þarf milli þjóðarinnar og þingsins um lífskjör á næstu árum að ríkið yfirtaki ákveðna kostnaðarhluti í ríkari mæli en verið hefur. Á móti kemur það sem virðist vera óumflýjanlegt að lífskjör munu skerðast, kaupmáttur mun skerðast og fólk tekur á sig þyngri byrðar en það hefur borið hingað til.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbrigðisnefndar.