136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[14:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um stimpilgjald.

Frumvarpið er lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir á fjármálamörkuðum

(Forseti (EMS): Ég bið þingmenn um að gefa hæstv. fjármálaráðherra tækifæri til að halda framsöguræðu sinni áfram.)

og tilmæla yfirvalda til banka og sparisjóða um að aðstoða fólk sem kynni að lenda í greiðsluerfiðleikum vegna hækkunar fasteignalána sem rekja má til lækkunar krónu og verðbólguáhrifa.

Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lög um stimpilgjald þess efnis að stimpilgjald verði fellt niður tímabundið, annars vegar vegna skilmálabreytinga á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga og hins vegar vegna nýrra veðskuldabréfa sem gefin eru út vegna vanskila á fasteignaveðskuldabréfum einstaklinga. Í framkvæmd er vanskilum ýmist bætt við höfuðstól hins upprunalega fasteignaveðskuldabréfs með skilmálabreytingu eða útgáfu sérstaks nýs veðskuldabréfs í tengslum við hið fyrra. Í báðum tilvikum er það skilyrði fyrir undanþágu stimpilgjalds samkvæmt frumvarpinu að sömu aðilar séu útgefendur að hinu nýja skjali og eru kröfuhafi og skuldari samkvæmt viðkomandi fasteignaveðskuldabréfi. Jafnframt er það skilyrði að hið nýja skjal sé gefið út vegna tiltekins áður útgefins fasteignaveðskuldabréfs og vísi í það.

Er lagt til að um tímabundna aðgerð verði að ræða með það að markmiði að auðvelda einstaklingum að skilmálabreyta áður þinglýstum fasteignaveðskuldabréfum sínum, eða gefa út ný veðskuldabréf vegna vanskila á fasteignaveðskuldabréfum, þar sem þörf kann að vera á því hjá fjölda einstaklinga við aðstæður eins og þær eru nú.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.