136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[14:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Staðan hefur verið sú á undanförnum árum að vanskil hafa verið með minnsta móti í fjármálakerfinu og hvað fasteignalánin varðar. Þar af leiðandi hefur þetta ekki verið slíkt vandamál að uppi hafi verið í umræðu eða talið að gera þyrfti einhverjar sérstakar ráðstafanir vegna þess. Hins vegar eru aðstæður í þjóðfélaginu um mjög margt sérstakar nú um stundir og þá vegna þeirra erfiðleika sem eru í efnahagsmálunum, vegna breytinga á gengi og verðbólguáhrifa. Það hefur gríðarlega mikil áhrif á lántakendur og afborganir og greiðslur af lánum. Verið er að bregðast við því núna svo að þessar afbrigðilegu aðstæður valdi fólki ekki meiri erfiðleikum en nauðsyn ber til og liðka fyrir um það að skuldbreytingar eins og hér er um að ræða geti átt sér stað á þeim forsendum sem kynntar voru.

Á undanförnum árum, undir þeim kringumstæðum sem ég var að lýsa, hafa þessar aðstæður ekki verið fyrir hendi en vegna þeirra aðstæðna sem nú eru er þetta lagt til.