136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[14:40]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sjónarmið hefur lengi verið uppi í þingsölum sem víðar að stimpilgjaldið væri almennt ekki sanngjarn skattur til ríkissjóðs. Oft hefur verið lagt fram frumvarp til að fella það niður án árangurs þó að aðeins hafi þokast í þá átt.

Ég fer þess á leit við hæstv. ráðherra að hann leggi fram upplýsingar um væntanleg áhrif af frumvarpinu og tekjur á undanförnum 10–15 árum af skuldbreytingum lána, hversu mikið stimpilgjald hefur verið greitt á hverju ári vegna þessara skilmálabreytinga á skuldabréfum. Gott væri að fá þessar upplýsingar fram í þinginu og hæstv. ráðherra getur þá komið þeim til viðkomandi þingnefndar og eftir atvikum til annarra þingmanna.