136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:11]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Í gögnum sem kynnt voru á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem nú stendur yfir kemur fram að tekjur sveitarfélaganna jukust á verðlagi ársins 2007 um 39% frá árinu 2004 til ársins í fyrra. Þar af jukust útsvarstekjurnar um tæp 27% og jöfnunarsjóðs um nærri 60%. Því hafa þau sveitarfélög sem reiða sig hlutfallslega meira á framlög sjóðsins einnig notið góðs af tekjuaukningunni.

Aðkoma sveitarsjóðanna var því með besta móti á síðasta ári um allt land. Fá sveitarfélög voru rekin með halla og rekstrarniðurstaða þeirra var jákvæð sem nemur 32,7 milljörðum og þá eru óreglulegar tekjur ótaldar. Sú góða útkoma hefur vonandi skapað svigrúm til endurskipulagningar í rekstri sumra sveitarfélaga og þar af leiðandi betri stöðu til að mæta þeim miklu erfiðleikum sem nú steðja að í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég veit hins vegar að víða er staðan ekki nægilega góð, því miður. Það er ljóst að mikill viðsnúningur mun verða á milli áranna 2007 og 2008. Í samstarfi ríkis og sveitarfélaga hefur verið lögð áhersla á að fá greinargóðar upplýsingar frá öllum sveitarfélögum landsins um fjárhagslega stöðu sveitarsjóðanna og A-hluta stofnana um þessar mundir. Markmiðið er að reyna að fá heildarmynd af fjárhagslegri stöðu allra sveitarfélaga í landinu svo að hægt sé að segja betur til hvar skórinn kreppir að og hvernig. Nú þegar mikill meiri hluti sveitarfélaga er búinn að skila upplýsingum um rekstur fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2008 kemur í ljós við framreikning að rekstrarniðurstaða gæti orðið neikvæð um 4,3 milljarða. Það er mikill viðsnúningur frá síðasta ári, hæstv. forseti, og um leið mikið áhyggjuefni.

Ríki og sveitarfélög þurfa að halda áfram nánu samráði um þessi mál og mun ég beita mér fyrir því að fljótlega eftir að nýtt fjárlagafrumvarp verður lagt fram verði efnt til aukasamráðsfundar ríkis og sveitarfélaga þar sem efnahagsmál verða í brennidepli með hliðsjón af nýjum forsendum í fjármálum ríkisins. Á þeim fundi mun okkur gefast tækifæri til að fara yfir aðkallandi vanda í rekstrar- og fjármálum sveitarfélaga á komandi mánuðum og missirum. Það er vart hægt að taka afstöðu til sérstakrar fyrirgreiðslu við sveitarfélögin fyrr og þá vísa ég til þess sem málshefjandi hefur vikið að varðandi aukaframlög í jöfnunarsjóð. Ég vil þó benda hv. málshefjanda á að nú þegar eru ákveðin úrræði hjá jöfnunarsjóði sem hægt er að beita í því skyni að koma til móts við einstaka sveitarfélög sem eiga við mikinn fjárhagsvanda að glíma.

Ég hef boðað að ráðist verði í heildarendurskoðun á tekjustofnun sveitarfélaga m.a. í tengslum við að ný verkefni munu færast til sveitarfélaganna árin 2011 og 2012. Þau áform standa en ekki er hægt að útiloka að lögunum verði breytt lítillega áður en slíkri heildarendurskoðun er lokið. Sambandið hefur t.d. lagt til sem lið í ráðstöfunum vegna efnahagsvandans að ákvæði í tekjustofnalögum um lögveð í fasteignaskatti verði lengd og höfum við verið að skoða forsendur fyrir slíkri breytingu í ráðuneytunum.

Bráðavandi sveitarfélaganna um þessar mundir hefur verið takmarkaður aðgangur að lánsfé. Ég fagna því frumkvæði sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóður sveitarfélaga hafa sýnt hvað varðar að byggja upp lánasjóðinn enn frekar sem bakhjarl sveitarfélaganna í bráð sem lengd. Ég mun áfram leggja því verkefni lið eftir því sem þörf verður á.

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og upplýsa um að ég hef nú þegar gefið út reglugerð sem breytir tímabundið reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Breytingin felur í sér að eftirlitsnefndin á ekki sjálfkrafa að hefja eftirlitsaðgerðir þó að henni berist fjárhagsáætlanir frá sveitarfélögum sem sýna halla á rekstri ársins 2009. Nefndinni ber að skoða slíkar áætlanir heildstætt og í ljósi þess tímabundna efnahagsástands sem nú varir. Engu að síður ber sveitarfélögunum að gera grein fyrir hallarekstrinum til eftirlitsnefndar.