136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:18]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í dag halda sveitarfélögin sína árlegu fjármálaráðstefnu þar sem mikill fjöldi sveitarstjórnarmanna er saman kominn. Sveitarstjórnarmenn hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu sveitarfélaga nú í þeim þrengingum sem við horfum fram á. Nú blasa við miklir óvissutímar í fjármálum sveitarfélaganna en nokkuð ljóst er að í þeirri niðursveiflu sem fram undan er mun atvinnuleysi aukast og tekjur sveitarfélaganna því dragast saman. En niðursveiflan mun koma mismunandi niður á sveitarfélögum sem eru misvel í stakk búin að takast á við vandamál af þessum toga.

Á sama tíma og allt bendir til að mikill samdráttur verði í tekjum sveitarfélaganna bindur fólk vonir við að sveitarfélögin hækki ekki gjaldskrár sínar eða auki álögur á íbúa. Sveitarfélögin munu þurfa að taka á sig auknar byrðar með því að taka þátt í áframhaldandi framkvæmdum að svo miklu leyti sem það er hægt til að verja störf í sínum sveitarfélögum auk þess sem félagsþjónusta sveitarfélaganna mun grípa inn í með aðstoð við fjölskyldur sem þess þurfa. Þá þarf að tryggja að grunnþjónusta skerðist ekki þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir. Vandinn er ærinn hjá sveitarfélögunum í landinu og hagræðingar er þörf á öllum sviðum. Í ljósi þess ástands sem nú hefur skapast í efnahagsmálum er enn meiri þörf en áður á að ríki og sveitarfélög gangi í takt og vinni náið saman að úrlausn þeirra viðfangsefna sem fram undan eru.

Sveitarfélögin og ráðuneyti sveitarstjórnarmála hafa verið að kanna möguleika á að sveitarfélögin taki upp fjármálareglur í takt við það sem ríkissjóður hefur stuðst við í stjórn ríkisfjármála. Reglur þessar hafa miðað að því að ríkissjóður safni skuldum í niðursveiflu en greiði niður skuldir í uppsveiflu. Ekki náðist samkomulag um þessa reglu milli aðila en þrátt fyrir það er fyllsta ástæða til að hvetja sveitarfélög til að tileinka sér slíka reglu. Sveitarstjórnarmenn leggja ríka áherslu á að ríkissjóður haldi áfram að greiða viðbótarframlag (Forseti hringir.) í Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Ljóst er að þetta viðbótarframlag vegur þungt (Forseti hringir.) í rekstri margra sveitarfélaga og því tel ég brýnt að litið verði jákvætt á þá beiðni sveitarstjórnarmanna.