136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:25]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ber ykkur kveðjur hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, formanns samgöngunefndar, sem ég hleyp í skarðið fyrir í þessari umræðu. Sú umræða sem hefur átt sér stað í sveitarfélögunum á umliðnum mánuðum er ekki sú að sveitarfélögin ætli að skera niður í vinnuafli, að segja upp fólki. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir. Þar er takturinn sá að reyna að halda fólki í vinnu og einbeita sér að því að halda úti mannaflsfrekum verkefnum eins og komið hefur fram. Á sama hátt hafa öll sveitarfélögin 78 verið að hugsa í sömu átt, að halda utan um velferðarþjónustuna og styrkja grunnnetið. Þau hafa verið í ákveðnu samráði við ríkið vegna þess og Lánasjóðurinn opnaði lánalínu í samstarfi við Seðlabankann í októbermánuði. Lánasjóðurinn hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir sveitarfélögin en um leið hafa talsmenn hans ítrekað að ekki sé verið að hugsa um rekstrarlán þar heldur fyrst og fremst fjárfestingarlán.

Horft er til sveitarfélaga og ríkis varðandi verkefni á næstu árum og ég ítrekaði á fjármálaráðstefnunni í morgun að það eru ákveðin sóknarfæri hjá sveitarfélögum þrátt fyrir að það halli á. Ástæðan er einfaldlega sú að veltufé frá rekstri hefur verið gott hjá sveitarfélögunum. Hins vegar eru fjármagnsgjöld nú að sliga sveitarfélögin eins og marga aðra og þar af leiðandi hallar á efnahaginn. En um leið er eignarstaða sveitarfélaganna mjög góð en vissulega kreppir að hjá sveitarfélögunum.

Ég vil jafnframt ítreka, virðulegi forseti, að við skulum ekki gleyma okkur í umræðu um jöfnunarsjóð. Hann skiptir auðvitað fjölmörg sveitarfélaga miklu máli, líklega 50–55 af 78 þar sem 15% íbúar landsins búa. Hjá 85% íbúa landsins skiptir jöfnunarsjóður minna máli. Þar er hins vegar mikilvægt að halda úti mjög öflugu velferðarkerfi og ég vona að við getum stuðlað að því að sveitarfélögin haldi því áfram.