136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:29]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða og það er alveg á hreinu að staða sveitarfélaganna hefur versnað mjög á undanförnum missirum. Sveitarfélög standa reyndar mjög misjafnlega en þrátt fyrir 30–40 millj. kr. rekstrarafgang á síðasta ári að meðaltali og þrátt fyrir að gert hafi verið ráð fyrir svipaðri stöðu fyrir árið í ár verður hallinn hjá sveitarfélögunum í ár sennilega svipaður því sem afgangurinn hefði átt að vera. Við horfum því upp á sveiflu upp á 60–80 milljarða kr. sem er auðvitað gríðarlega mikið og verður erfitt fyrir sveitarfélögin að ráða fram úr því.

Að sama skapi þarf, eins og hér hefur komið fram, að auka þjónustu sveitarfélaga á ýmsum sviðum, ekki síst í félagsaðstoðinni og útgjaldaaukningin þar mun verða gríðarlega mikil. Þá er alveg ljóst að kostnaður vegna krafna á sveitarfélögin um að viðhalda framkvæmdastiginu og helst að hækka það, mun einnig þýða aukin útgjöld. Ofan á það kemur síðan mikill auka- og viðbótarkostnaður vegna einkaframkvæmda hjá sumum sveitarfélögum, eins og hér hefur líka verið bent á, þar sem kostnaðurinn rýkur upp vegna þess að það er bundið við vísitölutengingu við einstaka gjaldmiðla. Hækkunin er gríðarleg eftir fall krónunnar.

Ég held að ríki og sveitarfélög verði að setjast niður og fara yfir framkvæmdir á einstökum landsvæðum, í einstökum sveitarfélögum, og samræma framkvæmdir. Þau þurfa að sameinast um að ráðast í mannaflsfrekar framkvæmdir til að halda uppi atvinnustiginu hjá sveitarfélögunum og ýta þannig undir tekjugrunninn.

Herra forseti. Þrátt fyrir mjög mikinn vilja á Alþingi til að standa á bak við sveitarfélögin (Forseti hringir.) verður ekki horft fram hjá því að ríkissjóður er líka stórskaddaður. Bakland sveitarfélaganna hefur (Forseti hringir.) því oft verið meira en nú.