136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

hlutverk og horfur sveitarfélaga í efnahagskreppu.

[16:32]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Staða sveitarfélaganna er mjög mikið áhyggjuefni. Þensla undanfarinna ára hefur leitt af sér aukna skuldsetningu þar sem lán hafa oftar en ekki verið tekin í erlendum gjaldmiðlum. Sveitarfélögin voru mjög skuldsett fyrir og má spyrja hvort þau hafi mátt eða megi við aukinni skuldsetningu.

Staða sveitarfélaganna er vissulega misjöfn en flest þeirra eru þó með töluverðar skuldir í erlendum gjaldeyri. Sum eru nánast með öll sín lán í erlendum myntum. Enginn þarf að velkjast í vafa um hvað það þýðir við núverandi aðstæður þar sem lánin hafa kannski hækkað um tugi prósenta á nokkrum mánuðum.

Hér er mikil vá fyrir dyrum því að sveitarstjórnirnar sinna ýmsum lögbundnum hlutverkum sem eru algjört grundvallaratriði í daglegu lífi og velferð fólks. Sum sveitarfélag virðast þegar ætla að bregðast við með því að fresta framkvæmdum. Það getur vissulega verið nauðsyn en sveitarfélög þurfa þrátt fyrir fjárhagsörðugleikana að taka þátt í því eftir megni að halda uppi þjónustu og leggja lið í atvinnumálum.

Sérframlag þessa árs upp á 1.400 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verður nauðsyn á næsta ári einnig vegna þess ástands sem nú er uppi í landinu. Sveitarfélögin þurfa að leggjast á sveifina ásamt ríkisvaldinu við að reyna að koma í veg fyrir að niðursveiflan í atvinnulífinu og atvinnutækifærum fólks verði ekki allt of djúp. Þar til viðbótar hafa sveitarfélögin mikið félagslegt hlutverk á sinni ábyrgð og munu vissulega þurfa að leggja þar út fjármuni í auknum mæli til að styðja við fjölskyldur í sveitarfélögum. Það er auðvitað misjafnt eftir svæðum og landshlutum. Það verður örugglega erfitt hlutverk hjá sveitarfélögunum að þurfa að halda uppi þjónustunni, takast á við meiri erfiðleika og taka jafnframt þátt í því að reyna að halda uppi atvinnustiginu í landinu því að það er höfuðnauðsyn nú vegna þess hvernig komið er fyrir okkur Íslendingum. (Forseti hringir.)