136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

3. umr. um fjármálafyrirtæki.

[17:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við höfum tekið nokkur mikilvæg málefni til umfjöllunar á Alþingi í dag og samþykkt frá okkur sem lög, m.a. um breytingar á Atvinnuleysistryggingasjóði og á Íbúðalánasjóði til að koma til móts við fólk í greiðsluerfiðleikum. Hér er um að ræða kostnað fyrir ríkissjóð upp á 350 millj. kr. eða þar um bil. Til hliðar erum við með annan pakka. Við höfum — eða öllu heldur framkvæmdarvaldið — ráðstafað til bankanna tæpum 400 milljörðum kr., þar af um 200 milljörðum inn í peningamarkaðssjóði. 200 milljörðum, sagði ég, hvað er það? Það er eitt háskólasjúkrahús á ári í tíu ár. Þetta gerir Alþingi með bundið fyrir augun, eða öllu heldur framkvæmdarvaldið spyr ekki Alþingi um samþykki fyrir þessum ráðstöfunum. (Forseti hringir.)

Hér kemur síðan frumvarp sem við höfum óskað eftir að verði skotið á frest. Breytingartillögur komu fram klukkan þrjú í dag ásamt meirihlutaáliti frá viðkomandi nefnd. Við höfum óskað eftir því að málið fái faglega og lýðræðislega umfjöllun á Alþingi. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð og ég mótmæli því fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að málinu verði þröngvað í gegnum þingið með þessum hætti.