136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

3. umr. um fjármálafyrirtæki.

[17:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Málið sem stendur til að afgreiða er sett fram til að verja brýna hagsmuni. Í meðförum nefndarinnar hafa vissulega verið gerðar breytingar á því en þær hafa það að markmiði að verja enn frekar mikilvæga hagsmuni íslensku þjóðarinnar og erlendra kröfuhafa. Að baki liggur að farið verði með bú þau sem nú eru í höndum skilanefnda með ábyrgum hætti og að tryggt sé að þau verði ekki tætt sundur með tilviljanakenndum hætti af einstökum kröfuhöfum hér og þar um heiminn. Við erum að verja heildarhagsmuni íslensks almennings og kröfuhafa.

Mér er gersamlega óskiljanlegt að fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skuli tala fyrir því að verðmætum sé spillt með þessum hætti. Ég held að mjög muni fjölga í mótmælaher á Austurvelli ef hv. þingmenn Vinstri grænna fá ráðið og að hér verði (Forseti hringir.) verðmætum spillt og tjón almennings af því ástandi sem upp er komið verði meira en þegar er orðið.