136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti minni hluta viðskiptanefndar vegna frumvarps um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki.

Forsaga þessa máls er ekki löng en að gefnu tilefni er full ástæða til að rifja hana upp vegna ásakana um að við séum hugsanlega að tefja mál eða gera annað slíkt eða við séum hugsanlega að horfa fram hjá þjóðarhagsmunum og þar fram eftir götunum, sem eru algjörlega tilhæfulausar ásakanir í garð þess fulltrúa í viðskiptanefnd sem hér stendur. Það er dapurlegt að heyra þær koma hér fram þegar ég hef unnið að þessu máli af samviskusemi og þeirri þekkingu sem ég hef til að bera sem lögmaður. Mér finnst það óásættanlegt.

Þann 6. nóvember 2008 mælti viðskiptaráðherra fyrir tiltölulega einföldu frumvarpi um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, frumvarpi sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs studdi með ákveðnum veigamiklum fyrirvörum eða spurningum. Það var ekki flóknara.

Á fundi viðskiptanefndar rúmum hálfum sólarhring síðar voru kynntar til sögunnar af fulltrúum framkvæmdarvaldsins, viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og enn fremur af skilanefndum bankanna breytingar sem minni hlutinn taldi út frá faglegri skoðun að ekki hefðu verið skoðaðar í víðara samhengi og gætu haft afdrifaríkar afleiðingar. Ég fullyrði að með þessum breytingum hálfum sólarhring síðar tók frumvarpið stakkaskiptum, það breytti algjörlega um eðli. Ég hélt að tilgangur neyðarlaganna hefði verið að slíta þessum bönkum en ekki að þeir lifðu áfram. En allt í einu kom það upp þennan föstudag sem nefndin fundaði að þeir áttu að lifa áfram. Hvað breyttist?

Á fundi viðskiptanefndar — ég hafði krafist þess að leitað yrði álits réttarfarsnefndar — benti Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd á ýmsa annmarka á frumvarpinu, með þessum áorðnu breytingum vel að merkja, og sagði það koma sér spánskt fyrir sjónir. Hann lýsti enn fremur því sjónarmiði sínu að menn væru að fara yfir á varhugaverðar brautir. Hann orðaði það þannig — ég vænti þess að hv. nefndarmenn í viðskiptanefnd leiðrétti mig fari ég með rangt mál — að viðskiptanefnd, ríkisstjórnin væri að fara inn á sprengjusvæði. Það voru orðin.

Ég tek mark á réttarfarsnefnd, ég tek mark á Benedikt Bogasyni og Markúsi Sigurbjörnssyni. Ég tek mark á færustu réttarfarssérfræðingum landsins. Þegar ég heyri slík orð geld ég varhuga við og vil vanda þetta frumvarp.

Enn voru gerðar breytingar á upphaflega frumvarpinu og á breytingum sem lagðar höfðu verið fram, og af ákveðnum fulltrúum meiri hluta viðskiptanefndar hafa þessar breytingar verið kallaðar bútasaumur. Einnig hefur orðið skyndilausnir verið notað um þessar breytingar.

Minni hluti viðskiptanefndar skilaði ítarlegu nefndaráliti fyrir 2. umr. um frumvarpið og ég leyfi mér að vísa til þess að því er varðar þann rökstuðning sem þá lá fyrir og til ræðu minnar við 2. umr. frumvarpsins. Þar reifaði ég álitið, ítrekaði fyrri kröfur og krafðist þess jafnframt að enn og aftur yrði leitað eftir skriflegri umsögn réttarfarsnefndar og hún yrði kölluð fyrir. Það var nefnilega svo að þegar ritari réttarfarsnefndar kom fyrir nefndina var lítt sem ekkert hlustað á hann, það var svo. Ég hafði af því áhyggjur að ekki skyldi vera hlustað, að menn hefðu ekki eyrun galopin yfir alvarlegum ábendingum ritarans. Ég fylgdi þessari kröfu eftir, um formlega umsögn réttarfarsnefndar og/eða að hún kæmi fyrir viðskiptanefnd, með tölvupóstum til varaformanns viðskiptanefndar 12. nóvember 2008 og óskaði jafnframt eftir tilgreindum skjölum, aðallega frá erlendum kröfuhöfum. Ég fór þess líka á leit eða krafðist þess í tölvupósti til formanns allsherjarnefndar að nefndin tæki málið til umfjöllunar enda frumvarpið með þeim veigamiklu breytingum sem mælt var fyrir um á gjaldþrotaskiptalögum o.fl. á verksviði allsherjarnefndar. Frumvarpið hafði breytt eðli sínu og var orðið allsherjarnefndarfrumvarp en ekki viðskiptanefndarfrumvarp eða frumvarp fyrir sameinaðar nefndir. Þessum tölvupóstum, herra forseti, hefur ekki verið svarað og ég skil það ekki. Mér finnst mér sýnd óvirðing þegar tölvupóstum frá mér og jafnvel ítrekuðum er ekki svarað.

Boðað var til nýs fundar í viðskiptanefnd klukkan 18 12. nóvember 2008 sem síðar var afboðaður og ég hygg vegna ítrekaðrar kröfu okkar sem borin var að ég held upp á fundi forsætisnefndar um að formaður réttarfarsnefndar kæmi fyrir nefndina. Ég taldi það afar brýnt út frá lögfræðilegum, réttarfarslegum og faglegum sjónarmiðum. Það eina sem vakti fyrir mér var að frumvarpið yrði þannig úr garði gert að það yrði öruggt í framkvæmd því að mikil verðmæti eru í húfi. Það vita allir.

Á þennan fund í morgun mættu fulltrúar viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins og Markús Sigurbjörnsson, formaður réttarfarsnefndar. Ég ætla rétt að rekja það sem fram kom á þessum fundi án þess að nafngreina þá sem viðhöfðu þau ummæli, en það kom fram að erfitt væri að sjá hvert stefnt væri með frumvarpinu, hvað kallaði á framkomnar skyndibreytingar, bútasauminn, hverju greiðslustöðvun gæti eða ætti að geta áorkað og hvers vegna mælt væri fyrir afnámi 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Var bent á að um grundvallarákvæði væri að ræða sem endurspegluðu tilgang greiðslustöðvunar. Það kom enn fremur skýrt fram á þessum fundi að 19., 20. og 21. gr. gjaldþrotaskiptalaga settu verulegar hömlur við meðferð eigna og greiðslu skulda í greiðslustöðvunarferlum. Greiðslustöðvunarferli er eingöngu endurskipulagningarferli. Það má ekki ráðstafa eignum, það má ekki greiða skuldir. Í andsvörum gesta á fundi var vísað til vilja erlendra kröfuhafa um að bankarnir færu í greiðslustöðvun og síðar í hugsanlega nauðasamninga og hér væri um neyðarráðstöfun að ræða.

Herra forseti. Lagður hefur verið fram útdráttur úr lögfræðiáliti lögmanna í Bretlandi sem fylgir minnihlutaálitinu sem fylgiskjal. Þar kemur ekki fram sérstakur rökstuðningur þessarar bresku lögmannsstofu fyrir greiðslustöðvun, þvert á móti. Þar er tekinn fram vilji hinna erlendu kröfuhafa um skipulagða niðurlagningu bankans, ekki að hann lifi áfram heldur skipulagða langtíma niðurlagningu bankans til að gæta þeirra hagsmuna sem í húfi eru og mér eru vel kunn. Það sem vilji þeirra stóð til og stendur til samkvæmt þessu bréfi er andstætt 19., 20. og 21. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í bréfinu er talað um „orderly run down“ og „ability to trade“. Það er sem sagt verið að tala um að ráðstafa eignum, borga kröfur og þar fram eftir götum sem greiðslustöðvun heimilar ekki. Hér er verið að samþykkja frumvarp sem mælir fyrir um 24 mánuði í greiðslustöðvun. Frumvarpið er sem sé ekki í samræmi við vilja þessara erlendu kröfuhafa þótt það sé borið hér á borð. Flóknara er það nú ekki.

Spurt var á fundinum hvað fengist út úr greiðslustöðvun sem ekki væri unnt að ná út úr skilanefndum á grundvelli 100. gr. a í lögum um fjármálafyrirtæki. Það var líka vakin athygli á annmörkum ákvæða frumvarpsins um svonefndan frestdag sem varð tilefni til þess að meiri hluti viðskiptanefndar hyggur á breytingar og frekari bútasaum á frumvarpinu sem nú leit dagsins ljós um klukkan hálfþrjú í dag. Það var sá tími sem mér gafst, frá hálfþrjú, til að gaumgæfa meirihlutaálitið og gaumgæfa þessar nýju breytingar. Sú niðurstaða mín af þeirri skoðun er heldur dapurleg.

Gestir á fundinum bentu á að greiðslustöðvun mundi tryggja að ekki yrði gengið að eignum bankanna á Evrópska efnahagssvæðinu en sama gildir ef bankarnir hefðu verið teknir til gjaldþrotaskipta. Það kom fram á fundinum að Fjármálaeftirlitið muni ásamt skilanefndum, komi til greiðslustöðvunar sem getur staðið eins og ég sagði áðan í allt að tvö ár, reka umrædda banka. Þar er ég alveg kominn í kross, þar er réttlætiskennd minni, lögfræðiþekkingu og sómatilfinningu misboðið. Hvernig á það að geta gerst að Fjármálaeftirlitið og skilanefndir í umboði þess reki banka í greiðslustöðvun í allt að tvö ár og hafi á sama tíma eftirlit með bankanum? Þá spyr maður eins og grísku heimspekingarnir: Hver á að hafa eftirlit með eftirlitsmönnunum í þessu tilviki? Það er ekkert slíkt. Og það var ekki vilji neyðarlaganna að hlutverki Fjármálaeftirlitsins yrði afmarkaður jafnlangur tími að aðkomu bankanna og nú á að verða raunin. Maður spyr: Hvað er að gerast þar? Hver er tilgangurinn? Einhver segir að þetta sé valdabarátta formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóra. Ég veit ekkert um það en það heyrist ýmislegt. Það er mjög vandséð hvernig þetta, að eftirlitið reki banka, fer saman, jafnvel þótt til komi aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartíma sem frumvarpið mælir um að sé ábyrgðarlaus, þ.e. hann ber ekki ábyrgð nema vegna stórkostlegs gáleysis eða ásetnings.

Gestir töldu að ávinningur fælist í því að tryggð yrði vernd gagnvart erlendum kröfuhöfum og ég er sammála því, en það er hægt að ná því og bregðast við því með öðrum og einfaldari hætti. Ég verð að segja alveg eins og er að þær að lýsingar sem komu fram af hálfu fulltrúa viðskiptaráðuneytisins eða einkum Fjármálaeftirlitsins og lögmanns þess urðu til þess að bent var á að ráðagerðirnar væru andstæðar ákvæðum 19., 20. og. 21. gr. gjaldþrotaskiptalaga sem ég hef gert að umtalsefni, þ.e. að ekki megi ráðstafa eignum, ekki megi greiða skuldir. Greiðslustöðvun er frystikista, er lögfræðileg frystikista þar sem ekkert á að gerast nema endurskipulagning. Í dag er tími aðgerða, ekki að endurskipuleggja og endurskipuleggja, aðgerðir verða að fylgja nákvæmlega eins og vilji hinna erlendu kröfuhafa stendur til og ég lýsti með tilvísun í bréf þeirra.

Í framhaldi af þessu, eftir að búið var að ræða hvaða ráðstafana ætti að grípa til, fannst mér vera bakkað á fundinum og sagt að það ætti bara að fara í endurskipulagningu en ekki grípa til neinna ráðstafana, sem eru brýnar. Það verður að fara saman endurskipulagning og ráðstöfun, úrræði í stöðunni. Svona staða kallar á mjög skjótvirk úrræði þar sem fara saman skipulagning og viðbrögð. Og þetta telst ekki, herra forseti, í samræmi við vilja hinna bresku kröfuhafa sem ég hef vísað til áður.

Þeirri skoðun var lýst af gesti að hugsa yrði málið upp á nýtt, sérstaklega í ljósi hinna rýmkuðu fresta innan greiðslustöðvunar sem nú eru lagðir til í frumvarpinu, og skapa tryggt lagaumhverfi. Undir þessi sjónarmið tóku fulltrúar viðskiptaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins en sá kengur var á málinu að þeir töldu að það tæki of langan tíma og brýnt væri að afgreiða frumvarpið sem fyrst sem lög frá Alþingi. Skyldi það standast?

Minni hlutinn telur meinta tímapressu, sem er í rauninni lítt rökstudd, ekki réttlæta þau vinnubrögð sem hér eru höfð uppi vegna þess að greiðslustöðvunin sem á að fara út í og annað tryggir ekki og hefur ekki heimild til ráðstafana. Ég tel sjálfur að hægt sé að tryggja þá hagsmuni sem eru í húfi sem ég hef áður sagt að ég viðurkenni, að unnt sé að vernda hinar erlendu eignir með einfaldri lagabreytingu án þess að raska grundvelli gjaldþrotaskiptalaga.

Vakin var athygli á því við gesti að frekari breytingar yrði að gera á frumvarpinu og lögum um fjármálafyrirtæki og gjaldþrotaskipti ef takast ætti að ná markmiðum frumvarpsins. Það voru orð formanns réttarfarsnefndar, ekki orðrétt væntanlega en það var inntakið í orðum hans. Og hann ítrekaði sérstaklega að í greiðslustöðvun fælist endurskipulagning fjármála en ekki aðgerðir sem staðan kallaði á og tók aftur fram að það væri óheimilt að ráðstafa eignum og greiða skuldir. Hann lýsti þeirri skoðun að unnt væri að semja og setja fullnægjandi lagaákvæði á tiltölulega skömmum tíma þó að frumvarpið með áorðnum breytingum tryggi ekki traust lagaumhverfi. Annað kom líka fram og það er þversögnin í frumvarpinu, þ.e. að heimila greiðslustöðvun þegar önnur ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og ákvæði hlutafélagalaga gera Fjármálaeftirlitinu það skylt að biðja um frest. Það þarf sem sagt að taka inn fleiri ákvæði til að sú leið sem frumvarpið vill fara, ætlar sér að fara, verði virk.

9. gr. laga um fjármálafyrirtæki skyldar Fjármálaeftirlitið til að afturkalla starfsleyfi ef eigið fé er orðið undir ákveðnu hlutfalli af hlutafé sem sannanlega liggur fyrir. Það er ótvírætt að eigið fé þessara banka er komið undir það hlutfall sem 9. gr., 2. tölul. 1. mgr., mælir fyrir um. Skylda Fjármálaeftirlitsins samkvæmt því ákvæði er virk. Það varð að taka það ákvæði úr sambandi gagnvart fjármálafyrirtækjum, gagnvart þessum þremur bönkum. Það var ekki gert.

Ég vil líka árétta það sem kemur fram í minnihlutaálitinu sem lagt var fram við 2. umr., að ákvæði 101. gr. og 102. gr. sömu laga segja að Fjármálaeftirlitinu sé skylt að gera kröfu um gjaldþrotaskipti ef eignir hrökkva ekki fyrir skuldum. Þar er vísað m.a. í 2. tölul. 101. gr. sem mælir fyrir um þessa skyldu ef samþykktir bankanna setja þá kröfu á stjórnendur. Sú er raunin. Þá kröfu er bæði hægt að lesa út úr samþykktum og hún er algjörlega skýr í hlutafélagalögum um viðbrögð stjórnenda. Það þurfti að laga þessa grein líka og bregðast við þessu.

Það kom líka fram á fundinum að breyta þyrfti 1. gr. frumvarpsins vegna þess að 1. gr., um starfsleyfið, tekur eingöngu til gjaldþrotaskipta en ekki greiðslustöðvunar. Það er tekið fram að veita megi gjaldþrota fyrirtæki starfsleyfi takmarkað en það er ekki tekið fram að slíkt megi gera í greiðslustöðvun. Og, frú forseti, hvernig má það vera að bankarnir starfi áfram í greiðslustöðvun og hafi ekki undanþágu samkvæmt frumvarpinu til að starfa? Á þetta var bent í morgun. Þetta er ágalli.

Þær ábendingar og aðvaranir sem þarna komu frá formanni réttarfarsnefndar um tryggara lagaumhverfi fyrir óljósar, sem ég segi, fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og Fjármálaeftirlitsins, hafa ekki verið teknar til greina að frátöldum athugasemdum um frestdag. Því miður hafa þær breytingar ekki tekist. Ég kem betur að því síðar.

Það gerist svo, sem sýnir hversu mikið var hlustað á formann réttarfarsnefndar, að strax og gestir höfðu gengið af fundi nefndarinnar lagði formaður nefndarinnar fram fullgert nefndarálit sem reyndist vera drög sem búið var að semja áður. Áður en hann fékk að tjá sig, áður en hann kom með sínar réttmætu athugasemdir. Það var ekki gott. Ég ítreka þessi viðvörunarorð og fyrri viðvörunarorð í minnihlutaáliti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Svo kem ég að því að minni hlutanum barst, eins og ég sagði áðan, nýtt álit meiri hlutans og nýjar breytingartillögur um klukkan hálfþrjú í dag. Þar er í breytingartillögum við 2. gr., hv. formaður viðskiptanefndar — ég bið hv. þingmann að taka eftir því sem ég segi — í nýjum breytingartillögum við 2. gr. er lögfest ákvæði 116. gr. gjaldþrotalaga. Þar er orðrétt tekin upp 116. gr. Það gleymist hins vegar í frumvarpinu að lögfesta 117. gr. Hvað þýðir það? Það er búið að banna mönnum að höfða dómsmál. Það er búið að taka af mönnum réttindin sem stjórnarskráin ver, 70. gr., að hver maður geti leitað úrlausnar dómstóla um réttindi sín. Í 116. gr. gjaldþrotaskiptalaga er hægt að banna dómsmál gagnvart þrotabúi en það er ekki lokað fyrir dómstólaleiðina eins og hér er gert heldur er í 117. gr. opnað fyrir kröfulýsingar í þrotabú. Þær kröfulýsingar geta sætt andmælum og kærum og endað með dómi Hæstaréttar. Það er opin leið. Meiri hluti hv. viðskiptanefndar segir bara a og gleymir að segja b. Ég kalla þetta, með fullri virðingu fyrir hv. meiri hluta viðskiptanefndar, delluverk eða vanhugsað. Þetta var ekki hugsað til enda, það var ekki hugsað til enda að þetta gæti haft þessar afleiðingar. Þess vegna brást ég þannig við í dag að ég óskaði eftir að þessum fundi yrði frestað og við mundum skoða þau álitaefni sem þarna komu upp og álitaefnin sem komu upp hef ég á þessum stutta tíma borið undir þrautreynda lögmenn og fleiri sem staðfesta að þarna er 70. gr. stjórnarskrárinnar í húfi. Það er ekki gott fyrir Alþingi. Verið er að taka stjórnarskrárbundinn rétt einstaklinga og lögaðila til að leita til dómstóla um ágreining auk annarra frávika.

Það eru önnur frávik í þessari grein sem eru klúður. Það mistekst að innleiða réttilega ákvæði um frestdag. Reynt er að innleiða ákvæði um frestdag en það er ekki í anda gjaldþrotaskiptalaga. Frestdagur þarna er miðaður við að dómur sé uppkveðinn en frestdagur samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum er þegar maður leggur beiðnina um greiðslustöðvun fyrir. Það getur munað í tíma sem skiptir verulegu máli til að koma riftunum að.

Þarna hefur orðalagi verið klúðrað eða einhverju slíku eða ekki hlustað nægilega grannt á þær ábendingar sem komu fram á fundi nefndarinnar í morgun. Þetta vildi ég leiðrétta. Ég skynja mikilvægi málsins. Ég skynja að mikilvægi málsins er það gríðarlegt að lagagrundvöllurinn verður að vera í algjöru lagi. Það skynja ég vegna þess að við eigum við að etja mjög öfluga erlenda kröfuhafa sem hafa yfir miklu fé að ráða og öflugum sveitum lögmanna og þá er eins gott að vanda sig. Þess vegna geri ég kröfu til þess, frú forseti, eftir að hafa skoðað breytingartillögurnar þennan stutta tíma og fengið þessar efasemdir studdar rökum og viðtölum, að umræðu um málið verði frestað og málinu vísað á nýjan leik til viðskiptanefndar. Ég er tilbúinn að koma í það verk hvenær sem er og að við tökum þessar ambögur af sem geta verið afdrifaríkar, ótrúlega afdrifaríkar.

Ég held því líka fram, frú forseti, að þetta frumvarp með áorðnum breytingum stangist á við tilgang neyðarlaganna, nr. 125/2008. Ég fullyrði það og held því statt og stöðugt fram að neyðarlögin höfðu ekki þann tilgang að halda lífi í bönkunum. Og ég ítreka að innan gjaldþrotaskipta er hægt að ná öllum markmiðum sem hv. meiri hluti viðskiptanefndar stefnir að og gott betur, eða að skapa á tveimur, þremur dögum lagaumhverfi þar sem fara saman kostir gjaldþrotaskipta og greiðslustöðvunar í blönduðu frumvarpi sem tekur beinlínis á þessu umhverfi bankanna sem eru stór fjármálafyrirtæki. Þetta er óvenjulegt gjaldþrot þannig að e.t.v. kunna gjaldþrotalögin ekki að henta algjörlega óbreytt og það er sannarlega svo að greiðslustöðvun og nauðasamningar, að óbreyttum lögum og viðbótarbreytingum, henta ekki fullkomlega þessum sérstöku aðstæðum en þessum markmiðum, sem ég geri ekki lítið úr og ítreka það, var hægt að ná innan gjaldþrotaferils og gott betur.

Það virðist sem hagsmunir hinna erlendu kröfuhafa ráði för og það sem verra er, það er enn allt á huldu með vilja ríkisstjórnarinnar til framtíðarskipunar bankamála í landinu. Við blasir sú hætta að veikburða og bútasaumaðar skyndilausnir meiri hluta viðskiptanefndar verði vopnabúr dómsmála. Ég tek fram að í fyrsta lagi er allsendis óvíst hvort lagaskilyrðum fyrir greiðslustöðvun sé fullnægt. Það er allsendis óvíst. Ég hef bent á lagaákvæði þess efnis og að það þurfti að gera aðrar breytingar. Í öðru lagi mæla lög enn um skyldu Fjármálaeftirlitsins til að gera kröfu um gjaldþrotaskipti sem eru ósamrýmanleg frumvarpinu. Það þurfti að laga það. Og í þriðja lagi og það ítreka ég, það má búast við hatrömmum málaferlum frá hendi erlendra sem innlendra kröfuhafa þar sem þess verður hugsanlega krafist að greiðslustöðvun verði hnekkt. Hagsmunirnir þola það ekki að þessu ferli verði hnekkt. Við eigum að gera allt sem bestu augu landsins í réttarfari ráðleggja okkur. Við eigum að horfa og hlusta á það, gera þetta eins faglega og hægt er og enn og aftur út af þeim gríðarlegu hagsmunum sem eru í húfi.

Það mætti bæta fleiru við hér en ég fullyrði það og segi hér að frumvarpið með áorðnum breytingum er enn vanhugsað og það hefur orðið vanhugsaðra með breytingunum sem lagðar voru fram í dag og það er ófaglegt og það gengur gegn mannréttindum um aðgengi að dómstólum. Sú hætta er fyrir hendi. Þá er lagasmíðin auðvitað í hróplegri andstöðu við þessa handbók hér, um undirbúning og frágang lagafrumvarpa. En jafnvel þótt tíminn til stefnu sé stuttur og mikið liggi við þá er hægt að hafa vandaða vinnu í gangi.

Það er verið að feta vafasamar slóðir, það er verið að fara inn á jarðsprengjusvæði sem kann að valda stórfelldu tjóni og kann líka að eyðileggja grundvöll neyðarlaganna. Og ég segi líka að í uppsiglingu sé réttarfarslegt slys. Ég benti á jafnræðisregluna í fyrri ræðu minni við 2. umr. og Vinstri hreyfingin – grænt framboð lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórninni vegna þessa máls og mun greiða atkvæði gegn því.

Hér gildir hið fornkveðna: Ei veldur sá er varar. Ég hef lagt í þetta mál alla mína reynslu og alla mína þekkingu. Ég hef ekki farið fram á flokkspólitískum grunni til að skemma fyrir einhverjum heldur af áhyggjum af hagsmunum þjóðarbúsins, hagsmunum einstaklinga í landinu og hagsmunum þess að geta komið í veg fyrir atvinnuleysi í landinu vegna þessa hruns sem við höfum orðið fyrir.