136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[18:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir beindi til mín ákveðnum spurningum. Áður en ég svara þeim vil ég taka fram að ég kannast ekki við að hafa fengið beiðni sem formaður allsherjarnefndar um að taka málið upp. Það kom vissulega fram í umræðum í dag og má vera að mér hafi yfirsést eitthvað en hins vegar vil ég taka fram að þingið vísaði málinu til viðskiptanefndar og málið er á forræði hennar og þarf því ákvörðun viðskiptanefndar til að leita til annarra nefnda. Reglurnar sem fjallað er um í frumvarpinu snúa vissulega að lögum um fjármálafyrirtæki og hafa skírskotun til gjaldþrotaskiptalaganna en snúast sérstaklega um málefni fjármálafyrirtækja sem óumdeilanlega eru á vettvangi og verksviði viðskiptanefndar.

Spurningin sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir beindi til mín varðar — eftir því sem ég best fæ séð — hvernig riftunarmöguleikar eru varðandi þá gjörninga sem átt hafa sér stað síðan skilanefndirnar tóku til starfa. Nú er tekið á því í ákvæði til bráðabirgða samkvæmt breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar og þar kemur fram í 3. tölulið, með leyfi forseta:

„Í þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd í á grundvelli 100. gr. a skal miða frestdag við gildistöku laga þessara.“

Þegar lögin taka gildi er gildistökudagurinn frestdagurinn og það þýðir væntanlega eftir mínum skilningi að þær gerðir sem hafa átt sér stað frá því að skilanefndirnar voru skipaðar falla innan þess ramma sem réttaráhrif frestdagins hafa þannig að ég held að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því að ekki verði hægt að rifta einhverjum gjörningum verði talið tilefni til þess síðar.