136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[19:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason talaði um að áherslan hefði verið á bankana. Það þarf ekki að koma á óvart enda er um að ræða hrun fjármálakerfisins hér á landi, fall þriggja stærstu banka landsins sem samanlagt voru held ég með um 90% fjármálastarfsemi í landinu. Það er því ekki óeðlilegt þó að áherslan hafi verið á þá hlið.

Hins vegar mótmæli ég því aftur að ekki hafi verið hugað að hagsmunum almennings. Við höfum fjallað um frumvörp, m.a. í dag, sem snerta hagsmuni almennings og fleiri eru væntanleg þannig að ríkisstjórnin hefur unnið vinnuna sína hvað það varðar að tryggja að hagsmunir almennings séu eins vel tryggðir og hægt er miðað við þá skelfilegu atburði sem hafa orðið í fjármálalífinu.

Hv. þingmaður kom víða við og vel kann að vera að ríkisstjórnin megi bæta upplýsingagjöf sína til almennings. Ég held hins vegar að hún hafi gert mjög margt gott í þeim efnum en ég skal fallast á það að hugsanlega megi gera betur. Hins vegar varðandi samskipti við önnur ríki verðum við auðvitað að hafa í huga að á sama tíma og mikilvægt er að upplýsa og að línurnar séu skýrar er það stundum þannig í samskiptum ríkja að ekki er hægt að gefa allt upp til þess að setja ekki samningana í uppnám, það er bara þannig. Stundum eru aðstæður þannig að ekki er hægt að gefa allar upplýsingar opinberlega meðan á atburðarásinni stendur vegna þess að það gæti haft áhrif á atburðarásina. Allir sem hafa staðið í samningum þekkja að þegar verið er að semja er ekki endilega hægt að leggja öll spil á borðið eða kynna þau opinberlega og ég held að við verðum líka að hafa það í huga. En það má mjög vel huga að því að bæta upplýsingagjöfina og ég mótmæli því enn og aftur að ríkisstjórnin hafi ekki hugsað um hagsmuni almennings í þessu sambandi.