136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

upplýsingar um Icesave-samkomulag og skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:07]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fréttirnar sem hæstv. forseti færir okkur úr forsetastóli koma manni hálfpartinn úr jafnvægi þannig að ég verð kannski ekki með sama eldmóðinn í ræðu minni nú og ég hugðist vera með. Nú er það svo, hæstv. forseti, að þjóðin stendur frammi fyrir afarkostum Evrópusambandsins vegna þessara Icesave-reikninga og framkvæmdarvaldið lætur að mínu mati eins og það sé einrátt. Það gerir samkomulag um að skuldsetja þjóðina út í hið óendanlega, langt út fyrir þolmörk samfélagsins og mér hefur virst að Alþingi megi fyrir þessum ráðherrum éta það sem úti frýs.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta: Hvernig stendur á því að við rísum ekki upp út af þessum vinnubrögðum og krefjumst þess að allir þættir þessa Icesave-máls verði ræddir samhliða skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo að heildaráhrif þessara afarkosta verði öllum kunn og það fyrr en á fimmtudaginn kemur? Krafa þjóðarinnar hefur verið sú að við fáum upplýsingar, að við séum a.m.k. leidd í gapastokkinn með opin augu. Það er algerlega nauðsynlegt að við stöndum saman um það, svo að virðing þingsins bíði ekki hnekki, að framkvæmdarvaldið komist ekki upp með það (Forseti hringir.) að halda hlutum leyndum fyrir okkur. Og forseti Alþingis á stuðning stjórnarandstöðunnar í því að krefja stjórnarliða og ríkisstjórnina í því að gera (Forseti hringir.) grein fyrir hlutum, til að gera grein fyrir því með hvaða hætti hluti ber að.