136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

upplýsingar um Icesave-samkomulag og skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[15:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér og lýsi áhyggjum mínum af því hvernig upplýsingagjöf til Alþingis hefur verið háttað í kringum Icesave-málið og lánveitingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú er fyrirhuguð umræða á fimmtudaginn um skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en þingmenn geta lesið um þá á vefsíðu DV í dag. (ÁI: Ný þingtíðindi.) Ný þingtíðindi, er þetta leiðin til að uppfræða þingheim um skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Eigum við kannski að fara að nýta DV sem ný þingtíðindi?

Mér finnst alvarlegt þegar svo er komið fyrir upplýsingaveitu til þingsins að við fræðumst um það sem er að gerast hjá ríkisstjórninni ýmist í erlendum fjölmiðlum eða þeim innlendu fjölmiðlum sem hafa náð að setja fingurinn á púlsinn — og fáum svo að ræða málin nokkrum dögum síðar. Mér finnst þetta ekki viðunandi, herra forseti.