136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-reikningar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:21]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að færa fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins árnaðaróskir um framtíðina og þakka honum fyrir samstarfið í þinginu og víðar og vænti þess að hann eigi góða vegferð í störfum sínum hver sem þau verða.

Hæstv. forseti. Sú staða er uppi núna að því er varðar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar — því að líta verður svo á að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun eða alla vega forustumenn hennar — að við sáum í fréttum að gert hefði verið samkomulag sem fela mundi í sér samning. Eða var það kannski öfugt, að þetta væri samningur um að gera samkomulag? Við höfum a.m.k. ekki verið upplýst um það sem erum í forustu fyrir stjórnarandstöðuna. Nú er málum þannig komið, hæstv. forseti, að það er eðlilegt og sjálfsagt og raunar krafa að þessi mál komi til opinnar umræðu í heild sinni á Alþingi, samningsdrögin sem varða málefni er tengjast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það samkomulag sem virðist hafa verið gert og e.t.v. undirritað, og hér verður auðvitað að spyrja margra spurninga. Ég mun a.m.k. reyna að spyrja hæstv. forsætisráðherra nokkurra spurninga í óundirbúnum fyrirspurnatíma á eftir en þetta er auðvitað stuttur tími, hæstv. forseti, til að ræða svo viðamikið mál.

Ég ætla að segja eitt að lokum í þessari umræðu. Þegar hæstv. utanríkisráðherra telur að tíminn hafi unnið með okkur þá er það ekki mín skoðun, tíminn hefur unnið gegn okkur og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eins og þau hafa verið.