136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-ábyrgðir.

[15:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil halda áfram að spyrja um Icesave-ábyrgðirnar af því að áðan komu ekki svör. Hæstv. ráðherra fékk ekki að stíga í pontu og svara. Við þekkjum mjög vel þá aðferð að skrifa undir skuldbindingar með fyrirvara um samþykki Alþingis.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmann afsökunar á því að hæstv. utanríkisráðherra var ekki á skrá yfir þá hæstv. ráðherra sem voru til andsvara. (Gripið fram í.) Ef ekki er gerð athugasemd við það að leyfi ég hv. þingmanni að beina fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra sem fellst þá á að vera hér til andsvara. Engin athugasemd er gerð við það. Hv. 10. þm. Suðvest. byrjar þá að nýju og beinir fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra. )

Þakka þér fyrir, virðulegi forseti. Við þekkjum vel þá aðferð að samþykkja hluti með fyrirvara um samþykki Alþingis. Það hefur tíðkast lengi. En eins og ég hef komið á framfæri fyrr í þinginu tel ég að einmitt sú aðferð eigi alls ekki við í þessu tilfelli. Nú er um svo miklar fjárhagslegar skuldbindingar að ræða að þessi aðferð á ekki við. Við eigum að taka þetta mál fyrir inni á Alþingi og ræða það áður en skrifað er undir. Það er lágmarkskrafa að við fáum kynningu á því og fáum að vita nákvæmlega hvað í því felst.

Þess vegna spyr ég aftur, af því að ég held að allir geri sér grein fyrir því að þetta skjal, þetta samkomulag eða yfirlýsing eða hvaða orð sem við notum yfir það, skiptir verulegu máli. Annars væru Bretar ekki að hætta við að „blokkera“ okkur inn í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það skiptir verulegu máli hvernig á að skilja þetta skjal.

Eins og við hljótum að skilja það, virðulegi forseti, erum við að fallast á að borga lágmarksgreiðsluna og afsala okkur möguleika á málaferlum af því við höldum því ekki til haga í skjalinu að það er lagaleg óvissa um túlkun. Af hverju gerum við það ekki? Við erum að falla frá því. Þannig að ég hlýt að spyrja: Er búið að skrifa undir þetta skjal? Ef svo er, hver skrifaði undir það? Klukkan hvað og hver?