136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

Icesave-ábyrgðir.

[15:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að Bretum og Hollendingum, og væntanlega Þjóðverjum líka, líkar innihaldið í þessari yfirlýsingu er sú að við föllumst á að fara samningaleiðina og finna pólitíska lausn á þessu máli. Við erum búin að fallast á að koma því í ákveðinn farveg þar sem málið verður leyst eftir pólitískum leiðum og með samkomulagi og það skiptir máli.

Við getum haldið áfram lagaþrætunni ef okkur sýnist svo en vandamálið er að við förum ekki í gegnum Evrópudómstólinn vegna þess að þar erum við ekki. Við förum ekki í gegnum EFTA-dómstólinn vegna þess að þar eru Bretar og Hollendingar ekki. Þeir fallast ekki á að setja þetta í óháðan gerðardóm vegna þess að þeir segja: Með því er lagaóvissa og við föllumst ekki á hana.

Nú skal ég svara því hver skrifaði undir. Ég veit ekki hvort menn eru búnir að setja stafina sína undir þetta en ég hef sagt við sendiherra okkar í Brussel að honum sé heimilt fyrir sitt leyti að staðfesta að við föllumst á þessi viðmið, (Gripið fram í.) að þau liggi til grundvallar í viðræðunum. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin.)