136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

gjaldeyrislán frá öðrum þjóðum.

[15:40]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hefði viljað að hæstv. forsætisráðherra staðfesti yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra sem kom fram áðan: Við erum búin að skuldbinda okkur til að fara þessa leið. Sem sagt, við erum búin að skuldbinda okkur til að afsala okkur rétti til þess að láta reyna á mál fyrir dómstólum og lögformlegum leiðum sem við gætum átt rétt á.

Hæstv. forsætisráðherra sagði: Við höfum tekið ákvörðun um hvernig frá þessum málum verður gengið. Þá spyr ég, hæstv. forseti: Er líka búið að ganga frá því hvaða þjóðir ætla að lána okkur fé, úr því að þetta liggur svona klárt fyrir? Er búið að ganga frá því hvaða lánakjör eru í boði? Er búið að ganga frá því hvort afborgunarleysi er inni í lánakjörunum? Er vaxtaleysi inni í lánakjörunum til einhverra ára? Er það svo að í því samkomulagi, sem búið er að taka ákvörðun um að við gerum, sé viðurkenning Evrópusambandsins á því að ef Íslendingar ráða alls ekki við þær skuldbindingar sem ríkisstjórnin ætlar að gangast undir fái þeir einhverja neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu? Er það inni í þessum drögum?

Menn hljóta að vita hvað felst í drögunum úr því að hæstv. forsætisráðherra segir að við höfum tekið ákvörðun um hvernig frá þessum málum verði gengið. Það getur ekki verið mikill vafi í því, hæstv. forseti, og ég krefst svara. Skýrra svara.