136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

gjaldeyrislán frá öðrum þjóðum.

[15:45]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Auðvitað er allt gert til að reyna að vernda þær eignir sem íslenskir aðilar eiga í útlöndum og það eru sameiginlegir hagsmunir þar gagnvart Evrópulöndum og kröfuhöfum í bankana. Icesave-málið er liður í því að reyna að verja eignir Landsbankans í útlöndum, sérstaklega í Bretlandi. Það er eitt af markmiðum okkar í þessu máli að reyna að standa vörð um þær eignir þannig að þær glatist ekki.

Varðandi gjaldeyrissjóðinn er hugmyndin sú að það mál verði afgreitt á vettvangi sjóðsins. Þar með er hann búinn að segja sitt varðandi málið en tillaga til þingsályktunar, sem hér kemur fram í dag, kemur til afgreiðslu eitthvað á eftir afgreiðslu sjóðsins. Það skiptir ekki nokkru máli. Ef á daginn kemur að Alþingi kærir sig ekki um þessa fyrirgreiðslu verður ekkert af henni, óháð því hvað búið er að samþykkja í stjórn sjóðsins. Dagsetningarnar í þessu eru því ekki aðalatriðið. Það er hins vegar mikilvægt að fá niðurstöðuna frá gjaldeyrissjóðnum.