136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

embættismenn og innherjareglur.

[15:52]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Mér var ekki kunnugt um að ráðuneytisstjórinn ætti hlut í Landsbankanum og almennt er mér ekki kunnugt um það hvar starfsmenn ráðuneytisins eiga hluti. Hv. þingmaður veltir því upp hvort innherjareglur eigi að gilda um þá starfsmenn í stjórnkerfinu sem hugsanlega hafa upplýsingar sem ekki eru á annarra vitorði svipað og gildir um starfsmenn banka sem slíkar upplýsingar gætu haft. Ég held að það væri ansi stór hópur sem þar kæmi til álita, allir þeir sem vinna að spágerð, bæði í ráðuneytinu, Seðlabankanum og sérstaklega í þeim ráðuneytum eða því ráðuneyti sem fer með bankamálin, en rétt er að undirstrika að fjármálaráðuneytið fer ekki með bankamálin.