136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

samkomulag við IMF.

[15:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég vil mótmæla því að farið hafi verið með rangt mál því að bréf sem þarna er kynnt, bréf mitt og seðlabankastjórans, er afrakstur samningaviðræðna og samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem birtist á þennan hátt. Ég svaraði spurningum um þetta samdægurs þegar vextirnir voru hækkaðir og ég svaraði því til þá að ekki væri hægt að útiloka að vextir yrðu hækkaðir frekar og þó að við vonuðumst til þess að þeir yrðu skammvinnt háir væri ekki hægt að segja til um hvað það yrði lengi. Þeim spurningum sem hv. þingmaður beindi til mín hef ég því svarað áður.

Samningaviðræðum við Hollendinga er enn ólokið þannig að ekki er tímabært að birta gögn um það fyrr en að þeim loknum. Þegar þetta mál, sem væntanlega verður lagt fram í þinginu í dag, um samskipti okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, verður kynnt í nefnd verða þau skjöl sem því tilheyra væntanlega kynnt nefndinni þannig að hún geti skoðað þá hluti sem þar eru.