136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[16:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan geta farið þá leið að strika út verðtrygginguna, að stilla greiðslur fólks yfir á vaxtastig t.d. áður en hrunið átti sér stað og lækka verulega greiðslubyrði lána hjá fólki, t.d. um 25% eða eitthvað slíkt. Ég hef farið yfir það hvað það þýðir (Gripið fram í.) og einhver þarf að borga þetta, virðulegi forseti. Ég held að við eigum ekki að gefa eitthvað út í samfélagið sem við getum ekki staðið við. Við erum þá annaðhvort að kalla á gífurlega skattheimtu til framtíðar, ef við förum þá leið, eða að eigið fé lánastofnana verði uppurið.

Vinstri græn hafa talað hér fyrir Íbúðalánasjóði, ég tala líka fyrir því að við verjum Íbúðalánasjóð, en það liggja fyrir útreikningar um að ef við förum þá leið að frysta t.d. verðtrygginguna eða lánin næstu mánuðina muni eigið fé Íbúðalánasjóðs verða uppurið á tveim mánuðum. Auðvitað mun félags- og tryggingamálanefnd fá allar upplýsingar sem við höfum um þetta mál frá sérfræðinganefndinni og þar verður ekki legið á neinu til þess að fara yfir málið. Sérfræðinganefnd sem var skipuð hagfræðingum og viðskiptafræðingum og stærðfræðingum lá mjög yfir þessu máli. Hún hafði ekki langan tíma, ég held að það hafi verið upp úr miðjum októbermánuði sem nefndin byrjaði að skoða þetta mál þannig að hún fundaði stíft og mikið einmitt til að geta komið með tillögur sem hefðu áhrif á það að lækka greiðslubyrði hjá fólki 1. desember næstkomandi. Ég margsagði það hér og dreg enga dul á það að við erum að fresta afborgunum en það er sú leið sem farin var t.d. 1985 og 1991 einmitt til að koma í veg fyrir misgengi launa og lána. Þótt slíkt hafi komið upp áður hafa menn ekki treyst sér til að strika yfir verðtrygginguna eða frysta verðtryggingu og menn treysta sér heldur ekki í það núna. Og þó við séum ekki að tala um mjög mikla léttingu á greiðslubyrði 1. desember mun hún verða enn meiri á næsta ári fyrir þá sem velja að fara þessa leið.