136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[16:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur nú mælt fyrir frumvarpi til laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og vil ég á þeim stutta tíma sem ég hef við 1. umr. málsins gera örstutta grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég get komið á framfæri á þeim tíma að því varðar bæði efni máls og ekki síst kannski vinnubrögð og vinnulag í þinginu.

Ég vil taka það skýrt fram að þar sem ég mun verða fulltrúi míns flokks í félagsmálanefnd við afgreiðslu og vinnslu þessa máls munum við að sjálfsögðu nálgast það með algjörlega opnum huga. Fulltrúar á okkar vegum hafa fengið vissa kynningu á því á síðustu sólarhringum og er rétt að það komi fram. Engu að síður er frumvarpið fyrst lagt fram og dreift hér í dag í fullbúinni mynd og með öllum fylgiskjölum sem því eiga að fylgja og ég verð að viðurkenna að sum þeirra er ég að sjá fyrst núna þó að ég hafi síðasta sólarhringinn legið yfir þeim drögum sem a.m.k. mér bárust í hendur.

Við munum að sjálfsögðu nálgast þetta mál efnislega með opnum huga og án allra fordóma. En varðandi vinnubrögðin sérstaklega þá verð ég að segja alveg eins og er að ég er ekki reiðubúinn til þess á þessum tímapunkti, a.m.k. fyrir mína hönd og míns flokks, að gangast inn á að málið verði afgreitt á örfáum klukkutímum sem lög frá Alþingi. Að minnsta kosti verður þá að reiða fram óyggjandi skýringar eða rökstuðning fyrir því að það sé óhjákvæmilegt til að niðurstaðan geti náð fram að ganga. Ég hef sjálfur miklar efasemdir um að það geti verið rétt að einhverjir sólarhringar í því efni getið ráðið úrslitum, að heimurinn hrynji í þessu efni ef Alþingi leyfir sér að taka tvo, þrjá sólarhringa t.d. fram á fimmtudag eða svo til að afgreiða þetta mál. Mun ég áskilja mér rétt til að halda þeim sjónarmiðum til haga eða óska frekari skýringa og rökstuðnings fyrir hraðari málsmeðferð.

Það er einfaldlega ekki hægt að una við það, virðulegi forseti, að Alþingi sé æ ofan í æ stillt frammi fyrir einhverjum afarkostum í þessu efni, að mál séu reidd hér fram tilbúin af hálfu stjórnarflokkanna og þau hafi jafnvel verið lengi í meðförum í ráðuneytunum. Hæstv. félagsmálaráðherra, sem ég vona að sé að fylgjast með umræðunni, upplýsti hér að um miðjan október hefði sérfræðinganefnd hafið störf eða skoðað tiltekna hluti eins og t.d. verðtrygginguna þannig að hún hefur haft u.þ.b. mánuð til að skoða þessi mál af sinni hálfu. Um helgina var sagt að hæstv. félagsmálaráðherra hefði ekki getað mælt fyrir þessu máli síðastliðinn fimmtudag vegna þess að það hefði ekki verið afgreitt úr báðum stjórnarflokkunum. Það kann vel að vera rétt, ég veit ekkert um það, en síðan er okkur í stjórnarandstöðunni stillt upp í dag og sagt hér þegar klukkan er orðin fimm: Þetta þarf að afgreiðast á þessum sólarhring. Það hljóta allir að sjá ósanngirnina í því sem við stöndum frammi fyrir vegna þess að við verðum auðvitað að fá tækifæri til þess að rýna málið, spyrja þá sem hafa matreitt það, fá umsagnir, þó að þær séu munnlegar, inn á fund nefndarinnar og fara í gegnum þær og vinna okkar álit, hugsanlega leita eftir viðhorfum í okkar eigin þingflokkum þannig að það gefist ráðrúm til að þingflokkarnir komi saman til stuttra funda. Ég mun því mælast til þess, ef ekkert sérstakt og óyggjandi kemur fram um að óhjákvæmilegt sé að afgreiða málið með þessu hraði, að við tökum okkur a.m.k. einhverja sólarhringa til þess.

En burt séð frá þessu vil ég segja að tilgangur frumvarpsins eins og kemur fram í 1. gr. þess, að jafna greiðslubyrði af verðtryggðum fasteignaveðlánum einstaklinga, er að sjálfsögðu jákvætt og mikilvægt innlegg í því efnahagsóviðri sem geisar um þessar mundir til að laga stöðu heimilanna almennt. Að sjálfsögðu verður líka að halda því til haga að við teljum að þær aðgerðir í þágu heimilanna sem ríkisstjórnin hefur kynnt og gerði í heilsíðuauglýsingu fyrir örfáum sólarhringum síðan þar sem taldir eru upp allmargir liðir, einir 10 eða 12 liðir þar sem farið er yfir til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa, þá sýnist mér í stórum dráttum að ríkissjóður sé í raun ekki að koma með nein sérstök útgjöld eða neitt sérstakt innspil í það verkefni að leysa greiðsluvanda heimilanna. Ég fæ t.d. ekki séð að sérstök útgjöld til heimilanna séu fólgin í því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Ég tel að skoða hefði átt aðra kosti. Hæstv. ráðherra fór hér yfir verðtrygginguna sérstaklega og fékk andsvar um það mál. Ég er einn af þeim sem hafa lengi verið þeirrar skoðunar að afnema eigi verðtryggingu. Ég er alfarið andvígur því hvort sem þar eru innlán eða útlán að þau séu bundin verðtryggingu og ég tel að við heilbrigðar aðstæður eigi einfaldlega að ákveða vexti ofan á skuldbindingar af þessum toga.

Hitt er svo auðvitað alveg ljóst, og ég geri mér mætavel grein fyrir því, að langmest af skuldbindingum í dag eru bundnar verðtryggingu og það er ekki hægt að henda henni í einu vetfangi eins og ekkert sé. Bæði kostar það mikið fé og þar að auki eru skuldbindingarnar með þessum kjörum og væntanlega er ekki hægt að taka þær af með lagasetningu. Þetta ætti þá fyrst og fremst við um nýjar skuldbindingar eða hugsanlega að menn gætu átt val um skipti á einhverjum tilteknum kjörum. Það er líka þannig að erfitt er að afnema verðtrygginguna í mikilli verðbólgutíð. Það er sannarlega rétt. En þá má minna á að í kjölfar þjóðarsáttarinnar 1990 voru áform uppi um að afnema verðtrygginguna og verðbólgan náðist þá niður á viðráðanlegt stig. Hæstv. félagsmálaráðherra var reyndar um tíma félagsmálaráðherra um það leyti líka. En ríkisstjórnin sem tók við árið 1991 undir forustu Sjálfstæðisflokksins fylgdi ekki eftir ásetningi ríkisstjórnarinnar frá 1988–1991 um að afnema verðtrygginguna og það var síðan aldrei gert þó að efnahagslegar aðstæður hafi verið til staðar á þeim tíma, því miður. Ég viðurkenni fúslega að það eru erfiðar aðstæður til þess núna en krafan er samt sú í samfélaginu, mjög rík, að farið verði í þetta verðbólgumál.

Í minnisblaði sem fylgir frumvarpinu er rakið hvað það kostar að fella tímabundið niður verðtrygginguna, t.d. frá júní á þessu ári til júní á næsta ári, og það er talinn óbærilegur kostnaður. Ég velti fyrir mér hvort hægt hefði verið að fara einhverja mildari leið t.d. eins og þá að setja þak á hækkun verðtryggingarinnar þó að hún væri ekki fryst að fullu, að það væri sett eitthvert þak á verðtrygginguna. Ég spyr hvort það hafi verið skoðað ítarlega og mun óska eftir upplýsingum um það á vettvangi nefndarinnar.

Það er nefnilega ekki hægt að mínu viti að taka verðbólguskotið sem óhjákvæmilega kemur núna og velta því öllu yfir á heimilin og fyrirtækin í landinu, að þau greiði verðbólguskotið að fullu en lánveitendur hafi bæði belti og axlabönd, eins og sagt er, í þessu efni og fái allt sitt. Hér er auðvitað um að ræða verulega, jafnvel milljarða tilfærslu sem ég get ekki fellt mig við að farið sé í. Verðbólguskotið á sem sagt að mynda eign hjá lánveitendunum upp á milljarða sem heimilin og fyrirtækin sitja svo uppi með til allrar framtíðar. Þetta finnst mér vera ójöfnuður og það er ófélagslegur svipur á þessari aðferðafræði.

Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnin hafi ekki hugsað þá leið að hækka umtalsvert vaxtabætur. Vaxtabætur sem í dag eru tekjutengdar skila sér auðvitað best til þeirra sem helst þurfa á þeim að halda. Og til þess að koma til móts við aukna greiðslubyrði hefði að mínu mati verið athugandi að fara þá leið að hækka vaxtabætur og húsaleigubætur. Helst hefði ég viljað sjá vaxtabætur og húsaleigubætur í einum pakka, eins konar húsnæðisbótapakka. Taka húsaleigubæturnar alfarið af sveitarfélögunum og yfir á ríkið, létta þar með vissri byrði af sveitarfélögunum sem veitir ekki af þegar þau verða fyrir miklu tekjutapi og auknum útgjöldum vegna félagslegra aðstæðna í sveitarfélögunum við þessar erfiðu aðstæður. Ég hefði viljað sjá fyrir mér einhverjar aðgerðir þar sem tekið hefði verið á þessu heildstætt.

Síðan er ekki hægt að horfa fram hjá því, sem reyndar kom fram í máli hæstv. ráðherra, að hér er um að ræða frestun. Það er auðvitað verið að fresta greiðslubyrðinni eða draga hana á langinn, þannig að þegar upp er staðið verður heildargreiðsla lántakenda meiri en hún ella hefði orðið. Hún verður meiri yfir allan lánstímann og það kemur fram í greinargerð og umsögn fjármálaráðuneytisins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra. Það er kannski ekki um aðra leið að ræða ef menn ætla að draga úr greiðslubyrðinni í augnablikinu en að fresta henni til seinni framtíðar en það er auðvitað ekki nein heildarlausn á vanda fjölskyldnanna við þær aðstæður sem nú ríkja, því miður.

Við horfum sem sagt fram á það núna að verðbólguskotið sem mun fylgja vaxtahækkuninni og því að gengið fer á flot í kjölfar lánveitingarinnar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, mun flytja eignir til í samfélaginu, frá almenningi og til fjármagnseigenda. Það finnst mér ekki vera mjög jafnaðarleg nálgun á málið og ég hefði viljað skoða aðra hluti í því efni. Ég vona að til þess gefist ráðrúm á vettvangi nefndarinnar og ég vonast líka til að formaður nefndarinnar sjái til þess að ef við getum með góðu móti tekið okkur einhverja sólarhringa án þess að það stefni málinu öllu í uppnám þá fáum við þá. (Gripið fram í.) Ég sagði að ég ætlaðist til þess og vonaðist til þess að formaður nefndarinnar tryggði að ef að hægt væri að taka sér einhverja sólarhringa í málið án þess að málinu öllu væri stefnt í uppnám þá fengjum við þá sólarhringa og það verði ekki þvingað hér fram á örfáum klukkutímum nema í algjörri og fullkominni neyð. En það verður auðvitað að skrifast á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að málið skuli hafa komið svo seint fram

Ég vil líka láta kanna hvort það sé ekki tæknilega mögulegt að fresta gjalddaganum 1. desember um einhverja sólarhringa. Það vill svo til að obbinn af þessum lánum er í sjálfvirkri skuldfærslu í bankakerfinu, það er ekki um það að ræða að prentaðir séu út greiðsluseðlar fyrir alla. Það er líka svo að kerfið sem hér er notað var sett á stofn í Reiknistofu bankanna 1985. Þá fóru um 6.000 lán inn í það kerfi. Mér er sagt að um 700 lán keyri enn þá á þessu kerfi í dag. Ergo: Þetta kerfi er til hjá Reiknistofu bankanna, það þarf ekki að hanna það upp á nýtt. Mér finnst því mjög sérkennilegt ef það kostar svo mikla vinnu og erfiðleika að ekki sé hægt að taka örfáa sólarhringa á vettvangi Alþingis til að fara yfir þetta mál og ég mun áskilja mér rétt til þess.

En að öðru leyti af því að tíma mínum er að ljúka, virðulegi forseti, þá vil ég einfaldlega segja og ítreka það sem ég sagði í upphafi að tilgangur þessa frumvarps er jákvæður. Við styðjum hann þó að við hefðum gjarnan viljað ganga lengra og taka inn í þetta aðra hluti sem ég hef þegar rakið hér í stuttu máli. Við áskiljum okkur rétt til að fara rækilega yfir það með þeim umsagnaraðilum sem verða boðaðir á fund nefndarinnar hvaða áhrif þetta hefur nákvæmlega fyrir fjölskyldurnar í landinu og við áskiljum okkur rétt til að óska eftir því að fá a.m.k. tilhlýðilegan tíma til að fjalla um það á vettvangi (Forseti hringir.) þingnefndar og þingflokkanna sömuleiðis.