136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ber hér fram eðlilegar og málefnalegar spurningar, ég ætla að svara þessu varðandi skuldirnar og skattana sem hann setur hér í samhengi. Ég geri mér grein fyrir því að ef menn ætla að leggja fjármagn úr ríkissjóði í að koma til móts við þessa auknu greiðslubyrði fjölskyldna í landinu getur það þýtt lántöku eða aukna skatta til framtíðar. En það er þá öðruvísi greiðslubyrði, henni er dreift með öðrum hætti ef það er gert í gegnum skattana en í gegnum það form sem hér er verið að tala um. Þetta er pólitísk spurning sem mér finnst eðlilegt að við veltum fyrir okkur.

Ég ætla ekkert að segja það hér og nú að þannig eigi það að vera en mér finnst mjög gild rök fyrir því að velta því fyrir sér pólitískt hvort menn vilja reyna að koma þessum verðbólgukúf í einhvern sameiginlegan farveg landsmanna allra frekar en að það lendi með þessum hætti. Þess vegna nefndi ég t.d. vaxtabæturnar — ég hefði talið að við gætum farið í gegnum vaxtabótakerfið til að koma til móts við þessar fjölskyldur, hugsanlega einhverja blöndu af þessum aðferðum öllum. En það er hlutur sem mér finnst eðlilegt að við ræðum betur á vettvangi nefndarinnar. Ég hef sem sagt enga fyrir fram gefna fordóma gagnvart einstökum leiðum í þessu efni og mér heyrist hv. þm. Guðbjartur Hannesson ekki hafa það heldur.

Varðandi tímafrestina sagði ég að ég vildi fá þann tíma sem við gætum tekið. Ég ætla ekki að leggja stein í götu þess að málið fáist afgreitt en ég trúi því ekki enn að tímaramminn um það sé svo þröngur að ekki fáist einhverjir örfáir sólarhringar af tæknilegum ástæðum — það á að leita allra leiða til þess að taka þann tíma sem við þurfum. Ég er sannfærður um að það er hægt. (Forseti hringir.) Ef mér verður með haldbærum rökum sýnt fram á eitthvað annað í nefndinni er ég tilbúinn til að sýna sveigjanleika og vænti þess að formaðurinn sé það líka.