136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:39]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, að frumvarpið ber brátt að. Málum er þannig háttað að við þurfum að bregðast við aðstæðum með miklu meiri hraða en ella hefði verið. Ég á von á því að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki þetta mál til umfjöllunar á eftir. Vonandi gefst tækifæri til að fá gesti og afla allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir nefndarmenn til að kynna sér málið vel svo að menn geti metið hlutina yfirvegað. Ég tel að hér sé um að ræða aðgerð sem muni skipta verulegu máli fyrir fólkið í landinu, fyrir þá sem nú þurfa að þola mjög há lán og háar lánaskuldbindingar. Ég held að það skipti miklu máli að þetta komi til framkvæmda hið fyrsta þannig að menn finni þessu stað strax 1. desember þegar greiðsluseðlarnir eru komnir á gjalddaga. Ég held að það skipti miklu og sé ástæðan fyrir því að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra fer fram á að frumvarpið fái hraða afgreiðslu á þinginu. Með því er alls ekki gert lítið úr því að þingið þurfi að fá tækifæri til að fjalla ítarlega um mál, ég hef sjálf talað um það úr þessum ræðustóli að það skiptir verulegu máli fyrir þingheim að fá tækifæri til þess.

Mig langar til að koma að nokkrum orðum í þessu máli vegna þess að ég var fulltrúi sjálfstæðismanna í hópi sem m.a. hefur haft það verkefni að fjalla um þetta atriði. Á föstudaginn var kynntu forustumenn ríkisstjórnarinnar í nokkrum liðum þær aðgerðir sem gripið hefur verið til og þær aðgerðir sem grípa á til svo að nálgast megi þann vanda sem uppi er í þjóðfélaginu. Mér þótti það mjög gott að loksins — get ég eiginlega sagt — skyldi það sett fram með skipulegum hætti hvað menn eru að hugsa hvað varðar vanda heimilanna. Í því efni er náttúrlega ýmislegt til talið sem þegar hefur komið til framkvæmda eins og t.d. ýmsar rýmkunarreglur hjá Íbúðalánasjóði til að lengja í lánum og slíkir hlutir. En ég vil árétta hér, vegna þess að í ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur kom fram að um væri að ræða ýmis úrræði sem hafa verið til staðar, að þetta mál snýr einnig að bönkunum í landinu. Þetta snýr að öllum þeim sem eru með verðtryggð lán, eins og segir í 2. gr., hjá fjármálafyrirtækjum sem hafa starfsleyfi á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Þetta snertir því alla þá aðila sem eru að sligast undan þungum verðtryggðum lánum.

Eins og fram kemur í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu er gert ráð fyrir ákveðnum kostnaði vegna þessa. Nú liggur fyrir að ekki þarf að mæta kostnaði vegna Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna og ég vil taka fram að ég held ekki að menn muni sækjast eftir þessu úrræði í svo stórum stíl að það muni valda sérstökum vandræðum. Sú leið er farin í frumvarpinu að menn þurfa að sækja um þetta, þeir sem sækja um fá að njóta þessa úrræðis. Ef um er að ræða fólk sem hefur góðar tekjur og lágar skuldir er þetta úrræði ekki heppilegt vegna þess að ákveðinn kostnaður felst í þessu. Þetta er fyrst og fremst hugsað til þess að létta greiðslubyrði viðkomandi aðila tímabundið í þeirri gríðarlegu niðursveiflu sem nú er fram undan — 17% lækkun á greiðslubyrði fólks á næsta ári er gríðarlega mikil breyting. Við eigum að líta þannig á að við séum að reyna að leita leiða til að létta greiðslubyrði heimilanna verulega.

Ríkisstjórnin hafði áður gripið til aðgerða út af myntkörfulánum á þá lund að menn hefðu heimild til að frysta þau. Margir voru á þeirri skoðun þegar sú aðgerð var kynnt að einnig þyrfti að líta til þeirra sem eru með verðtryggð lán og það er kannski grunnurinn að þeirri vinnu sem fór fram. En á það ber að líta að frysting á myntkörfulánum er líka mjög afdrifarík aðgerð — hér er ekki um frystingu að ræða, það er alveg rétt, hér er um það að ræða að menn geti með því að beita þessari greiðsluaðlögun að vísitölu lækkað greiðslubyrði sína við þessar óvenjulegu aðstæður.

Það er rétt að ýmis önnur umræða vaknar í kringum þetta mál, menn hafa rætt um verðtrygginguna og fleiri þætti. Hér er að vissu leyti verið að takast á við tímabundið verkefni. Ekki er verið að gera breytingar í þá veru, eins og menn hafa nefnt í umræðunni, að kollvarpa þeim kerfum sem hafa verið við lýði lengi. Ef við ætlum að gera slíka hluti, eins og t.d. að afnema verðtryggingu, þurfum við að gera það að mjög yfirlögðu ráði og með töluvert öðrum hætti en nú á við í því fárviðri sem geisar, það er ágætt að halda því til haga.

Samfélagið allt hefur kallað mjög eftir því að ríkisstjórnin gæfi frá sér ákveðin skilaboð til fólks um það hvað hún hyggist gera. Aðaláherslan hefur verið á að leysa úr hinum bráða vanda á gjaldeyrismörkuðum, menn eru að bíða eftir IMF-lánum og slíkum hlutum. Ég tel afar mikilvægt að líta sérstaklega til hags heimilanna. Þessi aðgerð er langmikilvægust fyrir fólk við þessar aðstæður af þeim aðgerðum sem kynntar voru á föstudaginn.

Það er nokkuð á reiki hver endanlegur kostnaður getur orðið, efri mörkin, vegna þess að maður veit ekki — maður veit hvað þetta getur kostað ef allir nýta sér þetta sem ég tel engar líkur á, þannig að við áttum okkur ekki alveg á því hvað það verður þegar upp er staðið. En auðvitað eru þetta allt saman peningar sem gæta þarf að og gæta þarf að því hvaðan þeir koma. Það kostar alltaf ákveðna hluti að setja peninga inn í kerfi. Aðeins er imprað á þessu í fylgiskjali fjármálaráðuneytisins en ég á von á því að hv. félags- og tryggingamálanefnd ræði það sérstaklega á fundi sínum hvaða áhrif þetta hefur síðan í framhaldinu og ég tel eðlilegt að það sé gert með skipulögðum hætti þar.

Mig langar að nefna eitt til viðbótar — ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, ég tel brýnt að sem flestir komist að í þessari umræðu — en það er það sem fram kom hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um aðgerðir gagnvart þeim heimilum sem eru í slíkum vanda að fólk er komið á það stig að missa heimili sitt og allt sitt, búið er að kippa undan því fótunum. Það hefur verið nokkuð í umræðunni að gera breytingar á skiptaréttinum eða gjaldþrotaskiptalögunum þannig að einstaklingar geti einnig leitað svokallaðra nauðasamninga. Þetta hefur verið kallað greiðsluaðlögun — greiðsluaðlögunarfrumvarp er nú í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu og gerir ráð fyrir því að þeir aðilar sem komnir eru í mikinn vanda, og sjá ekki fram á neitt annað en gjaldþrot, geti farið í ákveðið kerfi sem er þá þannig að þeir borga eins og þeir ráða við en losna við að verða gjaldþrota. Við skulum ekki gleyma því, og það skiptir líka máli í þeirri erfiðu umræðu sem nú er í þjóðfélaginu, að það er afar erfið aðstaða fyrir heimilin í landinu að þau verði gjaldþrota. Mér finnst skipta miklu máli að stjórnvöld hagi öllum aðgerðum sínum á þann veg að reynt verði að koma í veg fyrir að slík ósköp dynji yfir fólk. Ég held því að frumvarp um greiðsluaðlögun, hvernig sem það verður endanlega úr garði gert, muni skipta verulegu máli í þessari umræðu og ég býst við að það fari að styttast í að við sjáum það.

Aðeins út af tengslum þessa frumvarps við önnur mál sem nú eru rædd í þinginu. Fram kemur í frumvarpstextanum að ekki sé gert ráð fyrir því að skilmálabreytingin á lánasamningi kosti viðkomandi eitthvað. Skilningurinn er þá sá að banka- og fjármálafyrirtæki komi í veg fyrir að menn þurfi að borga einhvern aukakostnað af slíkum hlutum. Eins ber að geta þess að nú er í umræðu í þinginu frumvarp til breytinga á lögum um stimpilgjald sem á að koma þannig út að viðkomandi þarf ekki að borga stimpilgjöld af skilmálabreytingum. Hugmyndin er þá sú að vegna þess að hér er um að ræða aðgerðir til að létta á fólki, og þetta er tekjur sem ríkissjóður hefði hvort sem er ekki fengið, sé eðlilegt að mönnum sé ekki íþyngt á þann veg. Ég held að það skipti verulegu máli að þetta frumvarp og það frumvarp sem við ræðum hér fylgist að í þinginu.

Ég vona að málinu vegni vel í þinginu og ég finn að áhugi er á því. Menn þurfa að hafa tækifæri til að setja sig inn í það og átta sig á því hverjar afleiðingarnar eru. Ég vona að hv. félags- og tryggingamálanefnd muni geta hagað störfum sínum á þann veg að þetta verði skýrt með þeim hætti að það greiði fyrir afgreiðslu málsins eins og kostur er.