136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:49]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Satt best að segja átti ég von á því að þegar ríkisstjórnin loksins tilkynnti um lagfæringar að þær yrðu merkilegri og betri en raun ber vitni. Hvað þetta frumvarp varðar er sjálfsagt að byrja á því að spyrja: Hvað er vandinn mikill og hvað kostar þetta mikið? Hvað þýðir þetta í peningum, hvaða upphæðir er verið að ræða um? Það hefur ekki komið fram og kom ekki fram hjá hv. þingmanni í ræðunni sem hún hélt hér um þau mál. Rétt er að þetta lækkar greiðslubyrði tímabundið en það er næstum eins og að pissa í skóinn sinn. Þetta er ekki það sem fjölskyldurnar þurfa á að halda. Ég sé ekki að atriðin tíu sem kynnt voru fyrir síðustu helgi leysi vanda fjölskyldnanna eins og þarf að gera.

Það er t.d. augljóst að fjöldi manna og fjölskyldna eru að tapa húsnæði sínu. Fleiri þúsund fjölskyldur lenda í þessu og þurfa að fara úr húsnæði sínu eftir skamman tíma. Nær væri að leyfa þeim að leigja húsnæðið til þriggja ára.

Um stimpilgjöldin vil ég segja að Frjálslyndi flokkurinn flutti tillögu um að leggja stimpilgjöld alveg niður en ekki í einhverju hálfkáki eins og ríkisstjórnin leggur til núna og er í rauninni sáralítil búbót. Þetta nemur sennilega í það heila einhverjum 50 milljónum.