136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[18:03]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stýrivextir á Íslandi eru gríðarlega háir, um það getum við ábyggilega verið sammála, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Mér er fullkunnugt um að þeir eru grunnurinn að dráttarvöxtum í landinu. Að því sögðu munar náttúrlega töluvert miklu hvort það er 11% álag á þessa 18% stýrivexti af hálfu Seðlabankans á grundvelli laga um dráttarvexti. Ef þarna fara einhver prósentustig niður munar það töluvert miklu. Allt þetta skiptir máli.

Ég get ekki ímyndað mér að það sé gaman að vera núna með milljón krónur í yfirdrátt á 30% vöxtum. Ég hygg að mjög margir venjulegir Íslendingar búi við slíkar aðstæður, fólk sem gat ekki brugðist við fyrir 5. eða 6. október þegar ósköpin dundu yfir heldur situr uppi með þessa gríðarlegu yfirdrætti sína. Það er ekki gott.

Ég ætla ekki að munnhöggvast um einstaka þætti í þessari auglýsingu en ég vil samt halda því til haga, og ég ætla að halda mig við það, að þarna finnst mér ríkisstjórnin hafa orðað með fremur skýrum hætti þá sýn sem er á málið við þessar aðstæður á þessari stundu. Einhvers staðar í þessari auglýsingu er talað um að það eigi að lögfesta tímabundið heimildir til innheimtumanna ríkissjóðs um mögulega niðurfellingu dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda í ákveðnum tilvikum. Þarna tel ég reyndar að verði um ákveðin útgjöld að ræða af hálfu ríkisins en ég held hins vegar að aðgerðin sé mjög til bóta fyrir þá Íslendinga sem þurfa núna að standa undir verulegum vaxtakostnaði, herra forseti, dráttarvöxtum og alls kyns öðrum kostnaði. Það er sameiginlegt verkefni okkar að reyna að hjálpa fólkinu í gegnum þessar hörmulegu aðstæður sem skapast hafa.