136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[18:19]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því frumvarpi sem hér liggur fyrir frá hæstv. félagsmálaráðherra. Hinn 16. október síðastliðinn spurði ég hæstv. félagsmálaráðherra hvort henni þætti koma til greina að gera sérstaka undanþágu eða nálgast vísitöluútreikninga með öðrum hætti meðan þessi holskefla eða hamfarir gengju yfir en þá var rúm vika frá því að neyðarlögin voru sett. Þá sagði ég líka eftirfarandi:

„Útreikningar þessir eru svo slæmir til skamms tíma að það tekur engu tali og því er spurningin sú: Getum við leyft okkur að hafa eins konar hamfaraútreikninga þannig að þessi holskefla og hækkun til skamms tíma komi ekki ofan á lánastaflann sem síðan kemur til með að sitja á fjölskyldunum í landinu alveg þangað til að uppgreiðsla lána hefur átt sér stað?“

Í kjölfarið skipaði hæstv. félagsmálaráðherra nefnd, hóp sérfræðinga, til að fara í þetta mál og niðurstaðan er sú sem við sjáum hérna, að fara í eins konar greiðslujöfnunarvísitölu, en hún er þó ekki með þeim hætti sem ég hafði hugsað mér með þessari fyrirspurn, þ.e. að í rauninni er verið að létta á greiðslubyrði lánanna en hins vegar kemur hækkunin á láninu aftan á það. Það var niðurstaða þessa sérfræðingahóps og ég verð að beygja mig undir það, því að eins og margoft hefur komið fram hér í umræðunni þá þarf einhver að borga og það hefði einungis tekið tvo til þrjá mánuði að klára eigið fé Íbúðalánasjóðs ef sú leið hefði verið farin. Ég verð að beygja mig undir það en hins vegar fagna ég því að þessi breyting eða greiðslujöfnunarvísitala skuli liggja fyrir og hún verði þó til þess á meðan við göngum í gegnum þetta brimrót að létta á greiðslubyrði fjölskyldnanna.

Ég vil þó viðra eina hugmynd hér því að það er ekki alveg sjálfgefið, hæstv. forseti, að þetta komi til með að sitja endalaust á lánunum. Ef okkur tekst að fleyta krónunni þannig að hún styrkist í kjölfarið og ef það síðan gerist, sem ýmsir fasteignasalar hafa sagt mér að muni gerast, að íbúðaverð lækkar þá gæti orðið verðhjöðnun og hér gæti því orðið lækkun á vísitölu og þess vegna er ekki alveg sjálfgefið að þessi hækkun bætist við lánin. Þó svo að við höfum í rauninni sjaldan eða aldrei nema þá til mjög skamms tíma kynnst slíkri verðhjöðnun er ekki hægt að útiloka það og í því tilviki að fasteignamarkaðurinn lækki sem telur 16% inn í vísitöluna, ef krónan styrkist og aðföng lækka í verði gæti komið ákveðin leiðrétting til hins betra.

Hæstv. forseti. Ég vil undirstrika það að ég fagna þessu frumvarpi og mun að sjálfsögðu styðja það og ég vonast til að félagsmálanefnd geti afgreitt það hratt og örugglega.