136. löggjafarþing — 29. fundur,  17. nóv. 2008.

tollalög.

158. mál
[22:06]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd. Nefndarálitið er að finna á þskj. 191.

Nefndin hefur fjallað um málið.

Í frumvarpinu er lagt til að aðilar sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum geti óskað eftir breytingu á fyrirkomulagi gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilsins september–október. Er frumvarpið lagt fram í ljósi þeirra þrenginga sem fyrirtæki standa frammi fyrir sakir efnahagsástandsins.

Í umræðum í nefndinni var á það bent að gjalddagi fyrsta þriðjungs uppgjörstímabilsins samkvæmt frumvarpinu væri í dag. Er það skilningur nefndarinnar að þeim sem að óbreyttum lögum áttu að greiða fulla greiðslu í dag vegna uppgjörstímabilsins en gátu það ekki verði gert kleift að standa skil á greiðslu fyrsta þriðjungs án þess að það teljist til vanefnda.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Gunnar Svavarsson, Birkir J. Jónsson, Álfheiður Ingadóttir og Ólöf Nordal.