136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Félags- og tryggingamálanefnd hefur tekið til umræðu frumvarp um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og nefndarálit liggur fyrir.

Nefndin fjallaði um málið nú í kvöld og fékk á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Eddu Rós Karlsdóttur og Þorkel Helgason frá starfshópi sem félags- og tryggingamálaráðherra fól að skoða leiðir til að koma til móts við vanda lántakenda vegna verðtryggingar, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Sigurð Geirsson frá Íbúðalánasjóði, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Valgarð Sverrisson frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, Árna Guðmundsson frá Gildi lífeyrissjóði, Kristján Örn Sigurðsson frá Sameinaða lífeyrissjóðnum, Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðjón Steingrímsson frá Reiknistofu bankanna, Guðjón Rúnarsson og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Odd Ólason frá Glitni.

Ástæðan fyrir því að ég les þetta allt upp hér er sú að við kölluðum þessa aðila alla í einu á fund nefndarinnar, fórum yfir málið, fengum góða kynningu frá fulltrúum félagsmálaráðuneytisins og frá þeim sem unnu í þessum starfshópi og almennt voru engar athugasemdir gerðar. Menn mæltu eindregið með því að afgreiðslu málsins yrði flýtt og reynt yrði að hrinda því í framkvæmd sem fyrst. Við leyfðum okkur því að ljúka málinu á einum degi og koma því aftur inn í 2. umr. á þinginu strax í kvöld. Ástæða er til að þakka bæði nefndarmönnum og þeim sem brugðust skjótt við og komu á fund nefndarinnar og unnu með okkur fyrir að vinna vel og hratt í málinu.

Frumvarpinu, eins og komið hefur fram áður, var vísað til nefndarinnar í dag og var þá þegar tekið til umræðu. Um er að ræða frumvarp sem ætlað er að koma til móts við lántakendur og hindra að hækkandi greiðslubyrði heimilanna af fasteignalánum komi fjölskyldum í þrot þar sem laun hafa ekki tekið samsvarandi hækkunum. Frumvarpið hefur að markmiði að jafna greiðslubyrði fólks og draga úr misræmi milli launa og lána. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að hækkun viðmiðunarvísitölu láns umfram hækkun launa verði til þess að greiðslubyrði af lánum þyngist. Lagðar eru til gagngerar breytingar á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Meðal annars er lagt til að gildissvið laganna verði fært út þannig að þau nái til verðtryggðra fasteignaveðlána hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum og er skylda lögð á þessa lánveitendur að greiðslujafna afborgunum af fasteignaveðlánum í samræmi við ákvæði laganna óski lántakandi eftir því. Þá kveður frumvarpið á um að greiðslumark laganna sé 1. janúar 2008 þar sem þegar hefur orðið mikið misgengi á launum og lánum á fyrri hluta ársins. Einnig er kveðið á um nýja vísitölu, greiðslujöfnunarvísitölu, sem skilgreina skal og nota í stað launavísitölu við greiðslujöfnun samkvæmt frumvarpinu. Þessi nýja vísitala skal miðast við launavísitölu Hagstofu Íslands sem skal vegin með atvinnustigi til að endurspegla samdrátt í atvinnu og tekjum landsmanna.

Þau atriði sem fengu hvað mesta umfjöllun í nefndinni voru m.a. sjónarmið er varða rétt síðari veðhafa við greiðslujöfnun láns, kostir og ókostir greiðslujöfnunar og mikilvægi þess að uppfræða lántakendur um þessa kosti og galla. Einnig var áhersla lögð á að meta hversu brýn þörf er á að lögin taki gildi sem fyrst. Það varð sem sagt niðurstaðan eftir umræðuna að brýnt væri að ljúka þessu þannig að hægt yrði að breyta afborgunum nú strax 1. desember. Það kemur fram í álitinu.

Nefndin telur brýna þörf á að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi sem fyrst enda séu einungis nokkrir dagar í að greiðsluseðlar vegna gjalddaga 1. desember verði keyrðir út. Nú þegar hefur kaupmáttur heimilanna minnkað, margir hafa orðið fyrir skerðingu á starfshlutfalli og samsvarandi tekjuskerðingu og búist er við hækkandi verðbólgu í desember. Í ljósi þessa þykir nefndinni augljóst að það skipti sköpum að fá lækkun greiðslubyrði strax um mánaðamótin. Þá telur nefndin þörf á að flýta lagasetningunni svo að hægt sé að upplýsa lántakendur um hvað í greiðslujöfnuninni felst og útrýma þeirri óvissu sem nú ríkir í samfélaginu um úrræði vegna verðtryggðra fasteignaveðlána.

Þær upplýsingar komu fram á fundi nefndarinnar að til að breyta skilmálum veðlána með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um þurfi samþykki síðari veðhafa þar sem veðréttur er eignarréttarvarinn og greiðslujöfnun getur rýrt veðrétt þeirra. Í nefndinni kom fram vilji gesta til að beita sér fyrir samkomulagi fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs til þess að fyrir lægi samþykki síðari veðhafa þegar lánum yrði greiðslujafnað samkvæmt frumvarpinu. Nefndin styður slíkt samkomulag enda er það bæði tímasparnaður og hagræði fyrir lántakendur ef slíkt samþykki liggur fyrir.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að lántakendum séu kynntir kostir og ókostir greiðslujöfnunar og leggur áherslu á að lánveitendur verði upplýstir um að greiðslubyrði sé tímabundin en greiðslujöfnunin leiði síðar til aukins heildarkostnaðar í formi vaxta og verðbóta.

Í nefndinni komu fram þau sjónarmið að við greiðslujöfnun þyrfti að tryggja að lánveitandi gæti ekki krafist endurskoðunar annarra skilmála lánanna, þ.e. ekki er verið að taka ný lán þar sem hægt er að breyta lánaskilmálunum heldur er eingöngu verið að fara inn í umrædda greiðslujöfnun og ekki er hægt að breyta vöxtum eða öðru slíku.

Nefndin áréttar að gefa þurfi svigrúm til að koma greiðslujöfnun á og að í reglugerð þurfi að kveða á um að umsókn um greiðslujöfnun þurfi að berast ákveðnum dagafjölda fyrir þann gjalddaga sem jöfnunin á að taka til. Því til áherslu er lögð til breyting á 7. gr. laganna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, en þar er ítrekað að ráðherra getur sett í reglugerðinni tímamörk, þ.e. að ekki sé hægt að koma 29. eða 30. dag einhvers mánaðar og segjast vilja fá greiðslujöfnun sem taki gildi tveimur dögum seinna. Það er óframkvæmanlegt fyrir þá sem eiga að sýsla með lánin og þess vegna óskum við eftir því að ráðherra fái heimild til að setja ákvæði um einhvern ákveðinn dagafjölda þó að það verði að vera afar fáir dagar núna til þess að framkvæmdin náist fyrir 1. desember. Í nefndinni kom raunar fram að ekki er alveg víst að allar lánastofnanir nái þessu á þessum tíma en þær munu gera allt sem hægt er til þess að svo verði.

Við afgreiðsluna skrifuðu fulltrúarnir Árni Þór Sigurðsson, Helga Sigrún Harðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson undir álitið með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur m.a. að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós og aðrar leiðir að sama marki hafi ekki verið kannaðar gaumgæfilega. Þetta var fyrirvari minnihlutafulltrúanna.

Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta skrifa ég sem formaður, Guðbjartur Hannesson og hv. þingmenn Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Karl V. Matthíasson og Jón Gunnarsson og áðurnefndir með fyrirvara.

Ég vona að málið verði afgreitt í kvöld. Það skiptir mjög miklu að málið komist í höfn sem hluti af þeim lausnum sem verið er að vinna að til að bæta hag heimilanna og til þess að reyna að tryggja að fólk lendi ekki í þrotum við þær erfiðu aðstæður sem að okkur steðja í augnablikinu. Síðasta föstudag voru kynnt margþætt úrræði í sama tilgangi og að auki hafa verið nefnd önnur úrræði sem eru til skoðunar. Verið er að vinna að greiðsluaðlögunarfrumvarpi og verið er að ræða með hvaða hætti hægt sé að nýta séreignarsparnað. Taka þarf á varðandi myntkörfulánin þegar frystingu þeirra lýkur — með hvaða hætti menn fara út úr því. Allt er þetta í vinnslu ásamt fjölmörgu öðru sem hlýtur að verða að skoða til að tryggja að fólk lendi ekki í vandræðum eða missi húsnæði sitt.