136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[22:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að standa upp í lok 2. umr. og þakka hv. félags- og trygginganefnd fyrir afgreiðslu á málinu. Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að ekki er til fyrirmyndar að ætlast til afgreiðslu á málinu á svo stuttum tíma. Við fórum yfir það við 1. umr. málsins af hverju það væri. Það er ekki bara sú sem hér stendur heldur hafa fleiri lagt áherslu á að málið gæti haft áhrif á greiðslubyrði lána þeirra sem velja þessa leið um næstu mánaðamót. Ég sé á nefndarálitinu að ítarlega hefur verið farið yfir málið í nefndinni og væntanlega geta þeir sem hafa komið fyrir nefndina tekið undir það að dagana sem eru til mánaðamóta þurfi til að hægt sé að haga kynningu með þeim hætti að fólk hafi svigrúm og ráðrúm til að skoða hvort þetta sé leið sem hentar þeim eða ekki.

Það er alveg rétt og satt sem hér hefur verið sagt að gegnum árin hef ég oft ásakað ríkisstjórnir fyrir svona vinnubrögð að koma seint og illa með mál til þings, oft rétt fyrir jól og rétt fyrir vor, og það hefur iðulega verið. Af því að vísað var til sambærilegs máls frá 1985 og 1991 þá hygg ég að ekki sé hægt að líkja ástandinu í þjóðfélaginu þá við það sem nú er. Í máli mínu greindi ég frá af hverju ég tel að liggi á þessu.

Það er auðvitað enginn fyrirvari heldur þótt ég hafi kallað formenn flokkanna eða staðgengla þeirra á fund minn á föstudaginn þegar málið var tilbúið til að fara yfir það með þeim og sent þeim frumvarpið um helgina til að þingmenn gætu farið yfir það og vona ég að það sé þá virt til betri vegar. Frumvarpið var a.m.k. sent um leið og það lá fyrir og þingmenn stjórnarflokkanna höfðu ekki lengri tíma til að fjalla um það og í þingflokki mínum var málið afgreitt sama dag og það var lagt fyrir.

Ekki er alls kostar sanngjarnt að fara mörgum orðum um að ekkert hafi verið gert að því er varðar heimilin í landinu og mér fannst einn ræðumanna láta líta svo út áðan að nánast ekkert hefði verið gert nema þetta eina mál sem nú er rætt um. Ég ætla ekki að fara ítarlega ofan í það sem gert hefur verið, en þingmenn vita að ýmislegt hefur verið bætt til muna, sérstaklega hvað varðar Íbúðalánasjóð og greiðsluúrræði hans, a.m.k. að því er varðar innheimtuferli á einstaklinga í miklum vanskilum o.s.frv. Þingmál sem nú er til umræðu í félags- og trygginganefnd fjallar um að hægt verði að skuldbreyta vanskilum úr 15 árum í 30 ár og ég hygg að það skipti marga máli.

Hér er látið líta út fyrir að ekkert hafi verið gert. Á eftir er mál á dagskrá þar sem stimpilgjöld og þinglýsingargjöld af skilmálabreytingum eru afnumin. Ég hygg að það skipti máli fyrir marga sem og frumvarp sem er til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd og ég nefndi áðan og snertir það að ef fólk er komið að því að missa húsnæði sitt verði ekki selt ofan af því heldur því gefinn kostur á að leigja íbúðina. Þetta gildir líka um leigjendur leigufélaga í greiðsluþroti, en Íbúðalánasjóður getur tekið þær íbúðir yfir svo þeir missa ekki leiguíbúðir sínar. Hér er um ýmis og margs konar úrræði að ræða og úrræðið sem við ræðum í dag nær til allra lánastofnana sem skiptir gífurlega miklu máli.

Við höfum líka afgreitt — af því að hér er látið líta út sem ríkisstjórnin haldi að sér höndum og geri ekki neitt — mikilvægt frumvarp um að atvinnurekendur sem þurfa að segja upp starfsfólki vegna rekstrarerfiðleika hafi þó þann valkost að geta boðið fólki upp á hlutastarf og síðan komi atvinnuleysistryggingar á móti. Það frumvarp er orðið að lögum þannig að alls ekki er hægt að halda því fram að hér hafi ekkert verið gert fyrir heimilin í landinu. Það hefur verið boðað að þetta séu ekki neinar lokatillögur að því er varðar hag heimilanna. Ýmislegt er enn í skoðun og undirbúningi, m.a. frumvarp sem kallað var eftir um greiðsluaðlögun sem ég held að sé mjög mikilvægt og hefur verið í þingsölum í 10 ár, vegna þess að ég hef a.m.k. flutt það 10 sinnum á þingi. Það er nú til meðferðar hjá dómsmálaráðherra og ég hef vonir og væntingar til að við getum afgreitt það fyrir jól og ég vona að það verði ekki það seint á ferðinni að þingmenn hafi ekki svigrúm til að fjalla um það.

Ýmis önnur mál hafa verið nefnd sem eru enn í skoðun og ég get ekki frekar en aðrir sagt hver verður niðurstaða þeirra. T.d. að í vissum tilvikum sé heimilt að nýta séreignarsparnað og eins sú hugmynd sem hefur verið nefnd að lífeyrissjóðir í Íbúðalánasjóði geti átt möguleika á því að eignast hlutdeild í íbúð — sem ég tel að hafi galla sem verið er að skoða og ekki ástæða til að hlaupa að því fyrr en menn hafa séð alla galla og kosti í því máli.

Hér var minnst á húsaleigubætur og vaxtabætur. Ekki er langt síðan húsaleigubæturnar voru hækkaðar verulega og þá höfðu þær ekki hækkað frá árinu 2000 þannig að töluvert er búið að gera fyrir leigjendur. Einnig hefur töluvert verið gert varðandi Íbúðalánasjóð. Lengi hefur verið kallað eftir því að brunabótamat væri afnumið. Það var gert fyrir ekki svo löngu síðan og skiptir verulegu máli fyrir þá sem eru að kaupa sér íbúð, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þegar miðað er við kaupverð íbúða. Það skiptir verulegu máli vegna þess að þegar brunabótaviðmiðið var í gildi fékk fólk ekki lánað nema kannski 50% af verði íbúðar, en því hefur verið breytt.

Að því er varðar vaxtabæturnar þá hefur það verið nefnt og skoðað — og af því að ég var spurð um hvort sérfræðinganefndin hafi ekki fengið beiðni um að skoða hitt og þetta þá hafði hún algerlega frjálsar hendur um hvað eina sem hún vildi skoða í þessu sambandi. En þetta varð niðurstaða hennar.

Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í það sem rætt var í dag af hverju ekki var hægt að setja þak á vexti eða miða verðtrygginguna eða þessa útreikninga við ákveðið verðbólgustig fyrir hrunið. Við fórum í gegnum hvaða áhrif það gæti haft og ég tel ekki ástæðu til að nefna það frekar.

Varðandi gengistryggðu lánin sem hér voru nefnd þá hef ég farið yfir það og fengið yfirlit hjá bankastofnunum hvernig þær hafa staðið að málunum. Það yfirlit er til og getur verið aðgengilegt fyrir hvern sem er. Gengistryggðu lánin hafa verið fryst í töluverðum mæli. Sumar lánastofnanir fara þá leið að borgað er miðað við ákveðna vísitölu fyrir hrunið og hinu safnað inn á reikning sem er ekki ósvipuð aðferð og hér þannig að bankastofnanir hafa að þessu leyti einnig tekið á málinu. Það mál er ekki sérstaklega á minni könnu heldur heyrir undir viðskiptaráðherra og ég geri ráð fyrir að hann sé að skoða hvort gera þurfi einhverjar lagabreytingar eða reglugerðarbreytingar í þá veru. Þessi mál eru ekki bara til skoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, heldur einnig í öðrum ráðuneytum.

Þegar talað er um hag heimilanna er mikilvægt að líka sé ráðist í aðgerðir að því er varðar fyrirtækin í landinu. Ég get fullvissað hv. þingmann um að verið er að vinna að tillögum að því er varðar aðgerðir fyrir fyrirtækin í landinu vegna þess að auðvitað þurfum við að halda atvinnulífinu gangandi og aðgerðir í þá veru verða væntanlega kynntar mjög fljótlega. Síðan munum við vinna áfram tillögur og hugmyndir sem hafa verið uppi á borðinu og snerta frekar íbúðaeigendur og hag heimilanna.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakklæti mitt til nefndarinnar fyrir að hafa afgreitt þetta fljótt og vel og skal sannarlega segja í lokin að ekki er til fyrirmyndar að óska eftir því að mál séu afgreidd með þeim hraða sem hér hefur verið en ég hef farið yfir það af hverju ég taldi nauðsynlegt að freista þess að þingið gerði það með þessum hætti núna.