136. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2008.

stimpilgjald.

151. mál
[23:08]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd og er málið að finna á þingskjali 187.

Eins og kemur fram í nefndaráliti fékk nefndin gesti.

Í frumvarpinu er lagt til vegna aðstæðna í efnahagsmálum nú um stundir að stimpilgjald af tilgreindum skjölum skuli falla niður tímabundið. Frumvarpið er hugsað til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að létta greiðslubyrði vegna vanskila á áður þinglýstum fasteignaveðskuldabréfum.

Í tengslum við frumvarpið var á fundum nefndarinnar rætt um gildistíma bæði fram og aftur í tímann, stöðu þeirra sem ekki eru komnir í vanskil en eiga í fyrirsjáanlegum greiðsluerfiðleikum, stöðu þeirra sem kjósa að endurfjármagna sig hjá öðrum lánveitanda og áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs. Þá var rætt um tímabundið afnám þinglýsingargjalds vegna þeirra atvika sem frumvarpið tekur til.

Nefndin fjallaði um upphaf gildistökunnar og stöðu þeirra einstaklinga sem nú þegar hafa staðið skil á gjaldi því sem frumvarpinu er ætlað að fella niður. Telur nefndin rökrétt að miða upphaf þessarar ívilnunar við gildistöku laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, nr. 125/2008. Með hliðsjón af fyrirsjáanlegum vandkvæðum skuldara leggur nefndin til að gildistími frumvarpsins verði lengdur um eitt ár eða til og með 31. desember 2009.

Nefndin ræddi afmörkun á gildissviði frumvarpsins með hliðsjón af stöðu þeirra skuldara sem ekki eru komnir í vanskil en sjá fram á greiðsluerfiðleika, þ.e. fólks sem ekki vill lenda í vanskilum.

Nefndin telur að rök standi til þess að frumvarpið verði ekki einskorðað við skilmálabreytingar og leggur til að hliðstæð regla gildi hvað endurfjármögnun varðar og skuli þá ekki greitt stimpilgjald af þeim hluta nýs veðskuldabréfs sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra veðskuldabréfs ásamt vanskilum. Reglan gildir hvort sem endurfjármagnað er hjá sama lánveitanda eða nýjum kröfuhafa. Nefndin ræddi áhrif frumvarpsins á tekjur ríkissjóðs. Kom fram að í fjárlögum ársins hafi ekki verið gert ráð fyrir tekjum af stimpilgjaldi á grundvelli þeirra atvika sem frumvarpið varðar. Frumvarpið er tilkomið vegna óvenjulegra aðstæðna í þjóðfélaginu.

Loks leggur nefndin til þá breytingu að þinglýsingargjald sem innheimt er á grundvelli laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991, verði fellt niður hjá þeim sem njóta eiga stimpilfrelsis samkvæmt þessu frumvarpi. Breytingin er gerð til samræmis við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali nr. 188.

Grétar Mar Jónsson hv. þingmaður sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álit þetta.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Helga Sigrún Harðardóttir og Ólöf Nordal.