136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:35]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Markaðshyggjan fékk svo sannarlega vítamínsprautu árið 2003 við einkavæðingu bankanna og við munum væntanlega eyða deginum í dag í að ræða skuldsetningu íslensks samfélags í kjölfar bankahrunsins. Það urðu þáttaskil í markaðsvæðingunni við myndun núverandi ríkisstjórnar þegar Samfylkingin afhenti Sjálfstæðisflokknum lyklavöldin í heilbrigðisráðuneytinu. Ekki hafði ráðherra Sjálfstæðisflokksins verið þar lengi á stól þegar farið var að auglýsa eftir tilboðum í ýmiss konar þjónustu sem áður hafði verið á vegum opinberra aðila, beint. Þar vil ég nefna sérstaklega Heilsuverndarstöðina ehf. sem var mikið óskabarn ráðherrans sem notaði hvert tækifæri til þess að láta ljósmynda sig við gerð þjónustusamninga um nánast hvað eina. Ég held að þeir hafi verið orðnir fjórir eða fimm. Nú er þetta óskabarn farið á hausinn, eins og reyndar fleiri, og menn hefðu kannski haldið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði eitthvað af þessu lært.

Nei, herra forseti. Sl. föstudag, 14. nóvember, birtist auglýsing í Morgunblaðinu, auglýsing um hvað? Það er útboð á þjónustu við aldrað fólk, það er útboð á þjónustu við fólkið sem fór á vergang við gjaldþrot Heilsuverndarstöðvarinnar. Til fimm ára er auglýst eftir rekstraraðila á allt að 35 skammtímahjúkrunarrýmum og 30 rýmum á dagdeild fyrir aldrað fólk. Ég vil spyrja hv. formann heilbrigðisnefndar, Ástu Möller, hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli virkilega að halda óbreyttri stefnu í einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu landsmanna.