136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. formanni heilbrigðisnefndar, Ástu Möller, að það eru ýmis fordæmi fyrir einkarekstri á heilbrigðismarkaði. Ég get nefnt eitt dæmi, það er SÁÁ. Hins vegar höfum við reynslu af því, frekar nýlega, að farið var í útboð á þjónustu, öldrunarþjónustu, sem m.a. var sinnt af deild á Landakoti að tilboðin sem bárust voru hærri en menn áttu von á. Þau voru hærri en það sem nú þegar er greitt fyrir þjónustuna sem þar er innt af hendi innan dyra. Það er því ljóst að það er mjög mikilvægt og ekki síst í því efnahagsástandi sem nú ríkir — þar sem við erum að skuldsetja þjóðina um hundruð milljarða á næstunni og það á einmitt að fara að ræða það í dag — að það verður að gera mjög ríka kröfu til þess að farið verði vel með almannafé. Þá kemur að mínu mati ekki til greina að fara í útboð ef tilboð sem koma inn eru hærri en kostnaður við þá þjónustu sem við erum að bjóða út hefur verið hingað til. Það er mjög mikilvægt að ráðdeildar verði gætt í þessu og þess vegna munum við örugglega hafa stækkunarglerið uppi þegar útboð fara fram og tilboð koma inn.

Það er mjög mikil tilhneiging hjá Sjálfstæðisflokknum að færa heilbrigðisþjónustuna út á markað og við munum vera mjög grimm í því, virðulegur forseti, að passa upp á að menn fari ekki að setja þjónustuna út á markað ef það á svo að borga meira fyrir hana þar en hjá ríkinu.