136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:49]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að benda á að í nefndinni sem vann að heilbrigðisþjónustulögum þar sem fyrst komu fram ákvæði um kaup á heilbrigðisþjónustu var fulltrúi Vinstri grænna. Þegar nefndin skilaði af sér hafði hvorki fulltrúi Vinstri grænna né fulltrúar annarra flokka eða hagsmunaaðila nokkurn fyrirvara varðandi þennan kafla. Það er það sem ég á við þegar ég segi að Vinstri grænir hafi komið að samningu á heilbrigðisþjónustulögum og þar á meðal þeim kafla sem varðar kaup á heilbrigðisþjónustu — (Gripið fram í: Studdu þeir þennan kafla?) fulltrúi Vinstri grænna í þessari nefnd, það er það sem ég hef verið að ræða um.

Varðandi það hver kostnaðurinn er af samningum við aðila eins og t.d. í hjúkrun aldraðra sjúklinga á Landakoti þá hefur komið fram að kostnaðurinn við rekstur þeirrar deildar eftir að hjúkrunarheimilið Grund tók yfir reksturinn er 15 millj. kr. lægri en kostnaður Landspítalans af rekstri deildarinnar. Þetta hefur komið fram þannig að það á sér ekki stoð sem sagt er að þetta rekstrarform sé dýrara í því tilviki.

Varðandi Heilsuverndarstöðina er ljóst að þar komu inn sjúklingar sem annars hefðu verið á Landspítalanum. Um er að ræða 50 einstaklinga sem útskrifuðust frá Landspítalanum sem á hverjum tíma voru þá í þjónustu yfir sólarhringinn eða á dagdeild. Þetta létti á Landspítalanum og ekki er neinum blöðum um það að fletta að kostnaðurinn við hvern einstakling er mun lægri í þeirri þjónustu sem Heilsuverndarstöðin veitti heldur en ef viðkomandi hefði verið inni á Landspítala sem hefði verið hinn kosturinn. Þetta voru einstaklingar sem treystu sér ekki heim eftir meðferð eða aðgerð á Landspítalanum en fengu þarna ákveðna millistöð til að fara í endurhæfingu og hljóta ákveðinn stuðning áður en þeir fóru heim. Þannig að kostnaðurinn var minni, hv. þingmaður. (Forseti hringir.)