136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra er greinilega mjög viðkvæmur fyrir því þegar vakin er athygli á því hvernig aðilar standa að vígi hvor gagnvart öðrum. Nú þarf ekki í sjálfu sér að deila um hvað lesist út úr þessum texta heldur má líka höfða til reynslunnar og vitna til þess. Veruleikinn er yfirleitt sá að þó að þetta líti kannski ágætlega út á pappírnum í byrjun og þó þetta sé kallað samkomulag og jafnvel áætlun íslenskra stjórnvalda sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fellst á þá er það annað í reynd þegar inn í ferlið er komið, til dæmis ef menn lenda í því að þurfa að framlengja lánum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til dæmis í því reglubundna eftirliti sem hann hefur. Þá kemur þrýstingurinn. Þá kemur ýtingurinn og menn eru komnir í veika stöðu hafandi skuldsett sig hjá honum og gengið inn í hans prógramm. Þetta eigum við örugglega — mér liggur við að segja því miður — eftir að ræða hér oft á næstu missirum ef við lendum þarna inni í þessu prógrammi eins og allt stefnir í.

Varðandi gjaldeyrismálin þá fagna ég því að sjálfsögðu að menn ætli að reyna að standa þar ábyrgt að málum og það standi ekki til að fara djúpt í vasana og reyna að halda uppi einhverju óraunhæfu gengi á krónunni eða verjast þar sveiflum. En það er boðað í áætluninni. Það er boðað með mjög sterkum hætti að menn séu reiðubúnir til þess eins og þar stendur, í 3. málslið 19. gr. Því er eðlilegt að uggur sé í mönnum gagn vart því. Það er líka alveg ljóst að það er í anda harðlínuhagfræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að gera þetta, að passa upp á peningana og vera ekkert endilega að hugsa um aumingja skattborgarana sem eiga síðan að borga af lánunum sem þarna að hluta til kannski tapast í einhverri vonlausri glímu við óróleika í gengi. Hættan að þessu leyti er því mjög mikil og kannski er þetta stærsta (Forseti hringir.) og vandasamasta álitamálið sem við stöndum frammi fyrir yfir höfuð, þ.e. spurningin um það hvort þetta tekst.