136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[11:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið sagt í þessari umræðu að það væri ánægjulegt og mikilvægt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði afgreitt umsókn okkar um lán frá sjóðnum og að áætlun okkar um þau áform sem við höfum varðandi fjárhagslega fyrirgreiðslu frá sjóðnum og okkar efnahagsáætlun í því sambandi væri ánægjuleg og mikilvæg og undir það get ég tekið. Það er hins vegar ekki sjálfstætt ánægjuefni að við skulum þurfa að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna þess að auðvitað hefðum við öll heldur viljað vera í þeirri stöðu að lenda ekki í þeim efnahagshremmingum og þeirri fjármálakreppu sem hér hefur riðið yfir og þurfa ekki að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða annarra um lán við þær aðstæður sem við erum núna í. En við erum einfaldlega í þeirri stöðu að hér hefur riðið yfir fjármálakreppa. Við stöndum andspænis mjög erfiðum aðstæðum. Við munum fara í gegnum mjög erfið ár, næstu tvö ár og við þær aðstæður er mjög mikilvægt að geta treyst á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lánafyrirgreiðslu hans. Við þurfum nefnilega á öðrum þjóðum að halda. Það er ekki þannig þegar að kreppir að þá eigi menn að skríða inn í skel, loka að sér, einangra sig og hafa helst sem minnst samband við aðra. Það er einmitt við slíkar aðstæður sem við eigum að opna gáttina og við eigum að reyna að hafa sem best og sem mest samskipti við aðrar þjóðir sem eru okkur velviljaðar og eru vinir okkar og vilja koma okkur til aðstoðar við þær aðstæður sem núna eru.

Það getur vel verið að þær þjóðir hafi sitt hvað við okkur að athuga, við það að athuga hvernig við höfum hagað okkar málum á undanförnum árum og vilji láta það koma fram. En við verðum bara að þola það og við verðum að taka því og við verðum að taka þá samræðu við þessa aðila. En við þurfum á þeim að halda. Við þurfum á lánafyrirgreiðslu að halda. Við þurfum á sérfræðiþekkingu að halda. Við þurfum á góðum ráðum að halda og þau getum við fengið meðal annars hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þau getum við fengið hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar í Evrópu og við eigum að taka því.

Ég lít raunar svo á að eftir að hafa beðið allmargar vikur eftir afgreiðslunni hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og eftir að hafa staðið í allmiklum deilum við Evrópusambandsþjóðirnar út af Icesave-reikningunum þá höfum við núna losnað úr ákveðinni herkví sem við vorum komin í vegna þessara mála. Við erum sem óðast núna að koma á góðum samskiptum við þessar þjóðir sem, eins og ég segi, við þurfum á að halda ekki bara núna heldur á komandi árum. Og við þurfum líka að koma á góðum samskiptum við okkar lánardrottna. Ég held að það sé alltaf mikilvægt þegar einstaklingar eða fyrirtæki eða þjóðir standa andspænis erfiðum aðstæðum að eiga góð samskipti við lánardrottnana vegna þess að við þurfum á lánveitendum að halda í framtíðinni. Það er ekki svo að við getum algerlega klippt á það því það er forsenda þess að bankakerfið okkar virki að það eigi aðgang að góðum lánveitendum þegar fram líða stundir.

Af því að hér hefur því verið haldið fram, meðal annars af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og vitnað er til þess í þessari áætlun okkar að við munum hafa samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og við munum kynna áform okkar fyrir sjóðnum og við munum leita eftir samkomulagi við sjóðinn um ákveðna hluti, að í þessu felist eitthvert valdaframsal eða valdaafsal þá er það ekki þannig. Þetta snýr fyrst og fremst að því að nýta þá sérþekkingu sem til er í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, fá góð ráð hjá þessum aðilum og eiga góð samskipti við sjóðinn eins og var reyndar líka gert við vinnslu þessarar áætlunar því hún var unnin í samráði við sjóðinn þó þetta sé okkar áætlun sem við berum að sjálfsögðu ábyrgð á, íslensk stjórnvöld. Niðurstaðan er okkar. En meginmarkmið þessarar áætlunar er að koma á starfhæfu bankakerfi og tryggja stöðugleika krónunnar. Það eru meginmarkmiðin og það er mikilvægasta verkefnið sem við stöndum andspænis núna samkvæmt þessari áætlun.

Eins og kemur líka fram í henni og sem er reyndar mjög mikilvægt og ástæða til að halda til haga er eitt af markmiðunum, að endurskipuleggja bankakerfið og auka tiltrú á því og koma þar á gagnsæju ferli. Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt og vil vekja sérstaka athygli á þeim ákvæðum í þessari áætlun sem lúta að bankakerfinu vegna þess að við höfum öll orðið vör við að tiltrúin á íslensku bankakerfi er ekki mjög mikil nú um stundir og þarf kannski engan að undra það. Þess vegna vil ég vekja sérstaka athygli á því að í 5. lið þessarar áætlunar er kveðið á um að koma eigi ákveðnu skipulagi á skil yfirteknu bankanna sem á að leiða til þess að hámarka heimtur eigna með gagnsæjum hætti. Þar á að vinna heildstæða aðgerðaáætlun um endurskipulagningu bankanna undir sérstakri yfirstjórn sérfræðings sem er Ásmundur Stefánsson. Hann hefur þessa yfirumsjón með aðgerðaáætluninni.

Í 6. lið áætlunarinnar er kveðið á um að næsta skref í endurskipulagningunni sé önnur umferð mats á bæði nýju og gömlu bönkunum til að tryggja að uppskiptin hafi ekki áhrif á heimtur upp í kröfur lánardrottna og það er virt alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki sem verður ráðið til að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni. Þetta er líka gríðarlega mikilvægt og aðferðafræðin sem unnið verður eftir á að liggja fyrir núna um miðjan nóvember.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi sérstaklega 10. liðinn í þessari áætlun þar sem segir að við munum endurskoða alla regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni og að ráðinn verði sérstakur reyndur bankaeftirlitsmaður til að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit og leggja til nauðsynlegar breytingar. Þessi aðili hefur verið ráðinn. Þetta er finnskur einstaklingur. Þetta er fyrrverandi forstöðumaður fjármálaeftirlitsins í Finnlandi sem hefur mikla þekkingu á þessu sviði og mun verða okkur til halds og trausts í þessari vinnu ef að líkum lætur. Allt skiptir þetta máli í þeirri vinnu sem fram undan er og í því mikla verkefni sem er að byggja hér upp starfhæft bankakerfi sem fólk hefur traust og tiltrú á.

Annað sem nefnt er sérstaklega í þessari áætlun og ástæða er til að geta um er endurskoðun á gjaldþrotalöggjöfinni til að auðvelda það að lánardrottnar og lífvænleg fyrirtæki geti samið sín á milli utan dómstóla þannig að fyrirtækjum sem eru lífvænleg en lenda í erfiðleikum verði forðað frá því að komast í þrot. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur í þessari áætlun vegna þess að við vitum að mörg fyrirtæki hér sem eru í grunninn góð og lífvænleg geta lent í verulegum erfiðleikum vegna þess hvernig staðan er á fjármálamarkaðnum.

Eitt sem hér hefur verið farið yfir og nefnt sérstaklega og er í þessari áætlun varðar ríkisfjármálin. Þar er mikill vandi fram undan og ljóst að hallinn á fjárlögum ársins 2009 verður umtalsverður. Það er gert ráð fyrir því í þessari áætlun að hann geti aukist í takt við aukin útgjöld og minnkandi tekjur en að ríkisstjórnin muni leggja fram endurskoðaða fjögurra ára áætlun sem hafi það að markmiði að við verðum komin í hallalaus fjárlög árið 2012.

Peninga- og gengismálin eru fyrirferðarmikil eins og gefur að skilja í þessari áætlun. Þar kemur einmitt fram að brýnasta verkefnið sé að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins og til að það sé hægt þá þurfi að grípa til sérstakra aðgerða til að mæta þeirri hættu sem fylgir verulegu útflæði fjármagns. Það er auðvitað það sem menn óttast ekki síst, þ.e. að það verði verulegt útflæði fjármagns og því þarf að mæta. Það er gert ráð fyrir því að það verði með tvíþættum aðgerðum, í fyrsta lagi vaxtahækkun sem vonandi er mjög tímabundin. Vaxtahækkun hefur það auðvitað að markmiði að gera fýsilegt að ávaxta fjármagn í landinu. En hins vegar þarf að leggja á tímabundin gjaldeyrishöft á fjármagnsflutninga. Þetta er í sjálfu sér þekkt aðgerð og eins og forsætisráðherra vék hér að þá þarf að leita heimildar til að hægt sé að gera það hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við þurfum væntanlega líka að skoða sérstaklega hvernig það samrýmist samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði sem gengur einmitt út á frjálst fjármagnsflæði. Það er hægt að grípa til þeirra aðgerða en þær verða auðvitað að vera tímabundnar. Það er hægt að hugsa sér bæði, eins og bent hefur verið á, að það séu lögð á þetta sérstök höft, þ.e. að enn þurfi að leita leyfis sérstaklega til að ástunda fjármagnsflutninga. Það er líka hægt að hugsa sér skattlagningu. Það eru ýmsar leiðir í þessu sambandi. Stundum hefur sú leið verið farin að leggja tiltölulega háan skatt á fjármagnsflutninga. En það er þá tímabundinn skattur. Jafnvel hefur það verið gert í löndum sem hafa lent í svona aðstæðum að lagður hefur verið á hár skattur og sagt að hann yrði afnuminn eftir ár til að tryggja að menn átti sig á mikilvægi þess að vera með fjármagnið í landinu í þann tíma sem erfiðleikarnir steðja að en vita síðan að skatturinn hverfi eftir tiltekinn ákveðinn tíma. Þetta eru hvort tveggja aðgerðir sem verður að grípa til til þess að tryggja að fjármagnið fari ekki úr landi.

Ég tel mjög mikilvægt varðandi þessa áætlun sem við erum að afgreiða hér að hún nýtur víðtæks stuðnings í samfélaginu. Það hefur raunar verið kallað eftir því úr mjög mörgum áttum að þessi áætlun verði gerð og að við fáum tilstyrk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í því erfiða verkefni sem við erum að vinna að núna. Hún nýtur líka stuðnings aðila vinnumarkaðarins og það er raunar mjög mikilvægt og ein af forsendum þess að þetta gangi vel að það verði sæmileg ró og samstaða á vinnumarkaði næstu tvö árin. Við erum að horfa fram á tvö erfið ár og á þeim tíma er mikilvægt að stjórnvöld, Seðlabanki, aðilar vinnumarkaðarins gangi í takt og séu harðákveðin í því að láta þetta takast, að láta þessa áætlun takast og láta það takast að við komumst í gegnum þennan öldudal sem við erum að fara núna í gegnum.

Við þurfum öll að vera staðráðin í því að vinna í samræmi við þessa áætlun og gera það sem í okkar valdi stendur til að verja heimilin og fyrirtækin í landinu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði sérstaklega um mikilvægi þess og öll erum við sammála um það. En hvernig ætlum við að gera það? Hvaða áætlun höfum við um það hvernig það verði best gert? (Gripið fram í.) Hér hefur heyrst, meðal annars hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og mér hefur heyrst það á hans máli í þingsalnum að besta leiðin til þess væri að auka ríkisútgjöldin, auka hallann á ríkissjóði, gefa eftir gagnvart verðbólgunni en taka samt engin lán vegna þess að það virðist vera eitur í hans beinum að taka lán við þær aðstæður sem núna eru. (Gripið fram í: Hann sagðist vilja ...) Mér er alveg fyrirmunað að skilja (Gripið fram í.) hvernig hv. þingmaður ætlar að láta þetta ganga upp, þessa hugmynd sína um aukinn halla á ríkissjóð, eftirgjöf gagnvart verðbólgunni, en taka samt engin lán því ekki má taka þau hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Og ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kemur ekki, hver á þá að koma til sögunnar? Vegna þess að lánin sem við erum að sækja til Evrópu eru algerlega tengd því að við séum með áætlun á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að hann taki út það sem við erum að gera í þessum efnum, að hann sé úttektaraðilinn í því sem við erum að gera. Það sem talað er um hér af hálfu Vinstri grænna eru því bara orð og engar gjörðir, engar tillögur, engar lausnir (ÁI: Þetta er alger útúrsnúningur.) frekar en vant er. (ÁI: Þetta er rangt!) Frekar en vant er. (ÁÞS: Þetta er rangt hjá ráðherranum!) Það er greinilegt að ég kem hér við kaunin á vinstri grænum sem sitja úti í sal og hrópa en geta komið (Gripið fram í.) hér í ræðustól á eftir og lagt fram sínar (Gripið fram í.) tillögur en þær hafa engar heyrst (ÁI: Hér hafa verið lagðar fram tillögur eftir tillögur.) í þessu sambandi.

Virðulegur forseti. Ég tel að þessi afgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í gær sé mjög mikilvæg. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við einöngrum okkur ekki eins og vinstri grænir gjarnan vilja gera heldur að við séum með opnar gáttir út í heim, eigum sem best og mest samskipti við aðrar þjóðir, notum þá sérfræðiþekkingu þar sem hún er, nýtum þá lánafyrirgreiðslu sem menn eru tilbúnir að veita okkur og séum ekki að troða illsakir við allt og alla, eins og mörgum er nú svo lagið að gera, heldur reynum að rækta (Gripið fram í.) vinskapinn þar sem hann er til. (ÁÞS: Ertu að tala um forsætisráðherra?) (ÁI: Svari nú hver fyrir sig.)