136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:06]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra ákveðinna spurninga vegna þess að í ágætri ræðu hennar áðan kom fram að við hefðum losnað úr ákveðinni herkví vegna Icesave-reikninganna, eins og hún kaus að orða það, við hefðum nú losnað úr ákveðinni herkví. Þess vegna spyr ég: Hvernig og hvers vegna losnuðum við úr þessari herkví? Ég spyr einnig í annan stað: Hvers vegna lentum við í þessari herkví? Og í þriðja lagi: Um hvað snerist deilan? Snerist hún um innstæður á Icesave-reikningum eins og mikið hefur verið talað um eða snerist hún um eitthvað annað? Snerist hún um það að ríkisstjórnin vildi halda sér í ákveðna lögfræðilega túlkun tveggja lögfræðinga um að okkur bæri ekki að greiða þetta í samræmi við fjármálareglugerð Evrópusambandsins, sem við höfum þó lögleitt hér á landi, eða vegna þess að ágreiningurinn stóð um setningu neyðarlaganna og vegna þeirrar mismununar sem kemur fram í þeim lögum?

Ég spyr að gefnu tilefni vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra talaði um að við hefðum losnað úr herkvínni, að gefnu tilefni vegna þess að hv. alþingismenn hafa ekki fengið neinar upplýsingar um það sem máli skiptir varðandi þetta atriði. Þetta er í mæltu máli og máli fjölmiðla alltaf kallað „Icesave-deilan“. Miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem ég hef snýst þetta um miklu meira og að gefnu tilefni leyfi ég mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig stóð á þessari herkví?