136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að við losnuðum út úr þessari herkví var sú að við ákváðum og komumst að samkomulagi um það við önnur ríki sem voru aðilar að þessari deilu, og það var gert undir forustu frönsku formennskunnar í Evrópusambandinu, að fara samningaleiðina í málinu. Að finna pólitíska lausn á máli sem er öðrum þræði og hefur verið að okkar undirlagi ákveðin lögfræðileg deila vegna þess að þetta hefur verið deila um lögfræðilega túlkun á tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 1994 um hvernig innlánstryggingum skuli fyrir komið og hvort þær innlánstryggingar, eins og þær eru skilgreindar í þessari tilteknu tilskipun, nái til þess ástands sem er hér á Íslandi þegar heilt fjármálakerfi fer á hliðina en sjálf tilskipunin var kannski hugsuð fyrst og fremst út frá því þegar einstakir bankar færu á hliðina, einstakar fjármálastofnanir.

Auðvitað má segja og það hefur verið málflutningur af okkar hálfu að þegar komið er á alþjóðlegu bankakerfi þar sem bankar geta starfað yfir landamæri sé sérkennilegt að vera ekki með innlánstryggingar sem eru þannig líka að þær séu yfir landamæri. Ég hygg reyndar að Evrópusambandið muni skoða þessa hluti í framhaldinu. Við lentum í þessari herkví m.a. vegna þessarar lögfræðilegu deilu. Það var skýr skoðun 27 Evrópusambandsríkja að réttaróvissa varðandi þessa tilskipun gæti ekki risið, mundi ekki rísa og þeir mundu aldrei ljá máls á því að hún risi. Þess vegna var hin pólitíska leið og samningaleiðin niðurstaða okkar eftir að hafa farið í gegnum þessa umræðu og á grundvelli þess munum við núna taka upp samningaviðræður við þessi ríki.