136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:42]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hennar undirtektir við þetta mál í grundvallaratriðum, bæði þetta mál og svo hitt málið sem tengist þessu þó óbeint sé, þ.e. Icesave-málið. Ég tel að Framsóknarflokkurinn undir forustu hins nýja formanns hans sé að taka hér mjög ábyrga afstöðu og hjálpa til við að reyna að leysa vandamál í stað þess að búa til ný.

Auðvitað komu margar spurningar fram í ræðu þingmannsins sem ég hygg að flestar hverjar verði að bíða þess að þingnefndir fái málið til umfjöllunar. Þá verður að sjálfsögðu reynt að svara öllu sem leitar á huga þingmanna.

Ég átti ekki samtal við breska forsætisráðherrann þann 8. október heldur var það þann 5. Ég talaði við fjármálaráðherrann þann 8., sem hringdi til mín og útskýrði málið frá þeirra sjónarmiði en lét þess jafnframt getið að þeir hygðust strax gefa út ákveðin fyrirmæli um að undanþiggja tiltekin atriði beitingu þessara hryðjuverkalaga. En málið í heild sinni af þeirra hálfu var náttúrlega óafsakanlegt og er það enn þá og auðvitað er verið að kanna hver réttarstaða okkar sé í því máli gagnvart þeim.

Varðandi lokaspurningu þingmannsins er um það að segja að vaxtaákvörðun Seðlabankans 15. október var óháð því sem fram undan var. Þá var verið að vinna að viljayfirlýsingunni. Síðan var talið, sem sagt nokkrum dögum seinna, að það væri best að grípa þá strax til þess að hækka vextina frekar en að draga það á langinn úr því að það lá í loftinu að það væri nauðsynlegt að gera það.