136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:44]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú alltaf spurning hvort maður á að vera glaður eða óánægður þegar maður fær hól frá forustumanni í ríkisstjórn og á kannski að hafa annað hlutverk og vera gagnrýninn. En þá vil ég nefna að það er ekki óskaplega mikið svigrúm fyrir stjórnarandstöðuna hér á hv. Alþingi þar sem annar stjórnarflokkurinn hefur í raun tekið að sér það hlutverk að vera fremstur í stjórnarandstöðu gagnvart Sjálfstæðisflokknum.

En mig langar til þess að spyrja hæstv. forsætisráðherra vegna þess að það kom fram hjá honum að hann hefði átt samtal við forsætisráðherra Bretlands 5. október, hvort það gæti verið að þegar seðlabankastjóri talar um að hann búi yfir upplýsingum um það hvers vegna hryðjuverkalögum var beitt gagnvart Landsbanka Íslands, hvort þetta samtal hafi getað haft eitthvað með það að gera.

Hverjar telur hæstv. forsætisráðherra vera ástæður þess að Bretar gengu svona langt? Var það fundur hæstv. viðskiptaráðherra í byrjun september með fjármálaráðherra Bretlands? Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að vera búinn að mynda sér skoðun á því hvers vegna þessum lögum var beitt og hvers vegna forsætisráðherra og fjármálaráðherra Bretlands gengu svona langt gagnvart Íslandi.