136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:04]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var ekki svo heppinn að sjá viðtalið í Kastljósinu í gær við Jón Sigurðsson sem bæði er yfir Fjármálaeftirlitinu og einnig varaformaður í stjórn Seðlabankans. Er það ekki rétt? (Gripið fram í: Jú.) Eða bankaráðinu. Ég veit því ekki hvers hæstv. forsætisráðherra er að vitna til en mér skilst þó af orðum hans að þar hafi menn fundið sök hjá hvorugum þessara aðila. Af andsvari hæstv. forsætisráðherra mátti skilja að svo væri ekki og kannski væri enga sök að finna neins staðar í þessu máli.

Ég er ekki viss um, hæstv. forseti, hvort hægt sé að draga svona almenna ályktun því mér finnst að alltaf berist fleiri og fleiri vísbendingar um að menn hafi vitað meira um til hvers gæti dregið en kannski ekki brugðist við. Það sé það sem íslenska þjóðin lendir í núna með öllum þeim erfiðleikum sem á henni munu dynja á næstu árum. Ég ítreka að það er unga fólkið og fólk fram að miðjum aldri sem mun lenda í mestu erfiðleikunum að því er varðar þær skuldbindingar sem á íslensku þjóðinni hvíla, einfaldlega vegna þess að þetta fólk er að skuldsetja sig til þess að eignast eigið húsnæði. Það hefur verið viðtekin venja að Íslendingar reyni að eiga eigið húsnæði. Það er því greinilegt, hæstv. forseti, að það þarf að taka snarpari umræðu en hér hefur farið fram um hvað menn vissu og hvað menn vissu ekki.